Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur ákveðið að fara í fundaherferð um Evrópumál í haust. Varaformaður flokksins, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, segir að sjálfstæðismenn vilji stuðla að upplýstri umræðu um Evrópusambandið.

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segist fagna orðum Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

„Ég sé að Evrópuumræðan er komin á fullt skrið innan Sjálfstæðisflokksins,“ segir hann og bætir því við að það skipti máli að umræðan eigi sér stað innan annarra flokka en bara Samfylkingarinnar.

Hann kveðst líka fagna nýlegri ályktun miðstjórnar Framsóknarflokksins um að umboð til aðildarviðræðna við ESB verði borið undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Einn flokkur mun ekki koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Við þurfum þverpólitíska samstöðu. Samfylkingin er klár, atvinnulífið virðist vera klárt, verkalýðshreyfingin virðist vera klár og þjóðin er klár, en það vantar fleiri stjórnmálaflokka.“

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .