Colin Moynihan, formaður bresku ólympíunefndarinnar, segir öryggisráðstafanir vegna komandi ólympíuleika í Lundúnum í sumar séu í sífelldri endurskoðun, m.a. til að koma í veg fyrir sambærilega röskun og varð í róðrakeppni á Thames á í gær. Í samtali við BBC í dag saði Moynihan að það „þyrfti bara einn hálfvita“ til að eyðileggja íþróttaviðburði.

Eins og áður hefur komið fram fór árleg róðrakeppni á milli Oxford og Cambridge í 158. skipti á Thames á í Lundúnum í gær. Keppnin var þó stöðvuð þar sem ástralskur mótmælandi synti í miðja á til að koma skilaboðum sínum á framfæri.

Moynihan segir að lögreglan og aðrir sem hafi umsjón með öryggi á ólympíuleikunum fari nú á hverjum degi yfir öryggismál vegna leikanna. Atburðurinn um helgina sýni að full þörf sé að því að vera vakandi yfir öryggismálum.

Til gamans má segja frá því að Moynihan keppti sjálfur í umræddri róðrakeppni fyrir hönd Oxford háskóla.