Hallur Geir Heiðarsson
Hallur Geir Heiðarsson
© Höskuldur Marselíusarson (Höskuldur Marselíusarson)

Hallur Geir Heiðarsson rekstrarstjóri Nettó segir nýja Nettóverslun sem félagið opnar í dag klukkan 16:00 í Lágmúlanum töluvert ódýrari en 10-11 verslunin sem fyrir var.

„Nettó er auðvitað lágvöruverðsverslun, en við tókum einmitt eftir því að þegar við vorum að taka gamla verðmiða af tækjum úr búðinni sem við notum áfram, að verðið var allt upp í þrefalt jafnvel fjórfalt verð miðað við okkar verð,“ segir Hallur Geir.

„Þetta er sautjánda verslunin okkar, en okkur hefur alltaf langað að komast nær miðbænum. Það verður því spennandi að takast á við þetta, því hér er takmarkað af bílastæðum yfir daginn, en nóg eftir klukkan fjögur á daginn þegar vinnustöðunum í kring lokar, en þá er einmitt mest að gera hjá okkur. Við erum svolítið að treysta því á að fólk kíkji hérna við áður en það fer í bílana sína.“

Aðspurður segir hann þó búast við að verslunin muni tryggja viðskiptavinum sínum hluta af stæðunum fyrir framan. „Jújú við eigum hluta í þessum stæðum og breytum því eitthvað aðeins með tímanu,“ segir Hallur Geir sem segir opnunina núna vera í rólegri kantinum.

„Þetta er svona soft opening, rúllum þessu næstu vikuna og sjáum við hvernig allt virkar og svo verðum við með opnunarhelgi eftir viku, þar sem verða opnunartilboð og eitthvað húllumhæ.“

Í nýrri verslun Nettó
Í nýrri verslun Nettó
© Höskuldur Marselíusarson (Höskuldur Marselíusarson)

Leita að samstarfsaðilum í gömlu Vídjóhöllina

Hallur Geir segir verslunina nokkuð stærri en gamla 10-11 verslunin sem var fyrir með því að stækka inn í húsnæði gömlu Vídjóhallarinnar sem var við hliðina sem hýst hefur undirfataverslun síðustu ár.

„Við náðum að stækka verslunina um einhvera 170 fermetra, það er búðargólfið sem er á sömu hæð, en svo erum við að leita að samstarfsaðila á hinum tveimur hæðunum í því húsnæði. Þarna verður vonandi einhver sem býður upp á kaffi, bjór og mat, það væri flott fyrir þetta hverfi hérna enda mikil vöntun á því,“ segir Hallur Geir sem segir einungis einn hefðbundinn afgreiðslukassa verða í búðinni, hitt séu allt sjálfsafgreiðslukassar.

„Síðan er netverslunin, en það verður hægt að panta vörur og sækja þær hingað, og eru þá skjáir fyrir innan sem fólk kemur í og slær inn pöntunarnúmerið sitt og fær þá bara pokana sína með vörunum tilbúnum fram.“

Afgreiðslukassar í nýrri verslun Nettó
Afgreiðslukassar í nýrri verslun Nettó
© Höskuldur Marselíusarson (Höskuldur Marselíusarson)

Eins og sést á myndunum er allt á fullu í undirbúningi fyrir opnun nýrrar verslunar Nettó klukkan 16:00 í dag.

Undirbúningur opnunar nýrrar Nettó verslunar
Undirbúningur opnunar nýrrar Nettó verslunar
© Höskuldur Marselíusarson (Höskuldur Marselíusarson)