Kröfur í bú verslanafyrirtækisins BT verslanir ehf. í Skeifunni 17 í Reykjavík námu tæpum 1,2 milljörðum króna (1.167.167.382 kr.) að því er fram kemur í Lögbirtingarblaðinu. Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði félagið 4. nóvember 2008. Voru BT verslanirnar í eigu Árdags sem fór fram á gjaldþrotaskipti 12. nóvember 2008.

Skiptum á búi BT var lokið 29. apríl 2010 með því að skiptakostnaður greiddist að fullu. Þá greiddust kr. 132.497.935 upp í veðkröfur og kr. 12.675.611, eða 35%, greiddust upp í forgangskröfur. Eftir stendur því rúmur einn milljarður króna sem hefur farið forgörðum í gjaldþrotinu.

Um 50 manns störfuðu hjá BT verslunum fyrir gjaldþrotið í 30 stöðugildum. Hagar Invest ehf. keyptu lager og innréttingar ásamt vörumerki BT þann 20. nóve,ber 2008.  Var rekstrinum haldið áfram en í verulega breyttri mynd með tveim verslunum af  sjö og teknir voru yfir samningar við rúmlega 40 starfsmenn. Þessi gjörningur olli talsverðri gagnrýni m.a. frá Sverrir Berg Steinarsson, eigandi Árdegis sem átti BT verslanirnar áður en þær komust í hendur Haga. Gagnrýndi hann m.a. aðkomu Landsbankans að málinu og hlut Tryggva Jónssonar sem starfsmanns bankans, en hann var nátengdur Baugs keðjunni.

Hagar Invest ehf.  runnu síðan inn í Haga hf. sem dótturfélag, en Hagar voru sem kunnugt er innan Baugs keðjunnar.  Var samrunatilkynning send Samkeppniseftirlitinu til skoðunar í desember 2008. Komst eftirlitið að þeirri niðurstöðu að samruninn raskaði samkeppni með alvarlegum hætti og væri brot á samkeppnislögum. Skiptastjóri BT tilkynnti svo í maí 2009 að Hagar hafi hætt við kaupin á verslunum og viðskiptavild tölvuverslana BT. Eigi að síður enduðu afskipti Samkeppniseftirlitsins með því að Hagar hf. voru sektaðir vegna málsins um tuttugu milljónir króna í júní 2009.