Einn af fjórum meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabankans var á móti tillögu Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra og formanns nefndarinnar, að hækka stýrivexti um 0,25 prósentur. Fram kemur í minnispunktum frá fundi nefndarinnar að helstu rökin fyrir því að hækka stýrivexti í 6% voru þau að efnahagsbatinn héldi áfram og að slakinn hyrfi fljótlega úr þjóðarbúskapnum. Af þeim sökum væri æskilegt að halda áfram að draga úr slaka peningastefnunnar ella væri hætti að peningastefnan bregðist of seint við verðbólguþrýstingi.

Fram kemur í minnispunktunum að einn nefndarmanna sem studdi tillögu um vaxtahækkun hefði heldur kosið að halda þeim óbreyttum um sinn vegna veikra merkja um aukinn bata á vinnumarkaði sem yki á þá óvissu sem enn væri til staðar um kraft efnahagsbatans.

Sá sem hins vegar var á móti vaxtahækkun taldi batann enn viðkvæman þar sem vísbendingar væru um að hægt hefði á vexti innlendrar eftirspurnar og væri bati á vinnumarkaði enn hægur. Hann taldi litlar líkur á að mikil innlend eftirspurn orsakaði vaxandi verðbólgu, einkum í ljósi efnahagsástands í helstu viðskiptalöndum. Því til viðbótar taldi hann áhrif hærri vaxta á gengi krónunnar vera óviss við skilyrði gjaldeyrishafta. Að lokum taldi hann vaxtahækkun geta haft neikvæð framboðsáhrif sem kæmu m.a. fram í auknum föstum kostnaði fyrirtækja sem yki þrýsting á vinnumarkaði.