Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að einn núverandi starfsmanna dótturfélags Landsbankans var í gær færður til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsbankanum. Staðfestar upplýsingar þess efnis bárust forsvarsmönnum Landsbankans ekki fyrr en undir kvöld, segir í tilkynningu.

„Engin húsleit hefur verið gerð í húsakynnum bankans en Landsbankinn hefur frá upphafi lagt sig fram um að eiga gott samstarf við sérstakan saksóknara og látið hann hafa öll þau gögn sem hann hefur óskað eftir. Landsbankinn mun aðstoða saksóknara eins og kostur er við rannsókn þessara mála sem nú hafa verið nefnd verði eftir því leitað,“ segir í tilkynningu