Einn nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands vildi ekki hækka vexti, við síðustu vaxtaákvörðun fyrir tveimur vikum síðan. Hann kaus því gegn tillögu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra um 0,25 prósenta hækkun. Fjórir studdu þá tillögu.

Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar. Hún er birt er á heimasíðu Seðlabankans í dag, tveimur vikum eftir tilkynningu um vaxtaákvörðun venju samkvæmt.

„Fjórir nefndarmenn studdu tillögu seðlabankastjóra á þeim forsendum að verðbólga væri enn mikil, að því væri spáð að hún yrði mikil allan spátímann og að áfram væri veruleg hætta á að hin mikla verðbólga nú festist í sessi. Ennfremur bentu þessir nefndarmenn á að innlendur efnahagsbati væri vel á veg kominn og veikari horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum virtust aðeins hafa haft takmörkuð áhrif á efnahagsbatann á Íslandi,“ segir í fundargerðinni.

Sá sem greiddi atkvæði gegn tillögunni hélt því fram að vaxtahækkun hefði fyrst og fremst þau áhrif að tekjum yrði endurdreift frá fyrirtækjum, heimilum og ríkissjóði til lánveitenda. Það myndi skaða viðkvæma efnahagsreikninga enn frekar og tefkja úrlausn skuldakreppunnar. „

Ennfremur styrktu stöðugt gengi krónunnar undanfarna mánuði og lægri verðbólgutölur en búist var við það sjónarmið að halda bæri vöxtum óbreyttum. Þessi nefndarmaður hélt því einnig fram að ótryggt ástand á alþjóðavettvangi skapaði aukna óvissu fyrir íslenskan þjóðarbúskap og að erfitt væri að skilja þá ákvörðun að hækka vexti við þessar aðstæður, einkum í ljósi hagstæðari verðbólguspár.“

Í peningastefnunefnd sitja Már Guðmundsson seðlabankastjóri og formaður nefndarinnar,  Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur, Anne Sibert prófessor og Gylfi Zoëga prófessor.