Guo Guangchang er í haldi lögreglu og aðstoðar löggæsluyfirvöld í Kína við rannsóknir á spillingarmálum þarlendis. Honum var lýst sem týndum en í nýjustu frétt BBC er sagt frá því að hann sé heill á húfi.

Eftir að eigandi og forstjóri Fosun International, Guo Guangchang, var úrskurðaður týndur af starfsmönnum sínum í gær setti fyrirtækið hemil á viðskipti með bréf sín.

Guo Guangchang hefur verið lýst sem hinum kínverska Warren Buffett, en hann er meðal þeirra ríkustu í heimalandi sínu. Þó hefur hann verið viðriðinn mútumál og spillingu, og var til að mynda tengdur spillingarmáli fyrir dómstólum í ágúst.

Talsmenn fyrirtækisins sögðu í fyrri fréttum líklegast að hann hafi verið tekinn til yfirheyrslu varðandi einhverjar rannsóknir lögreglu, en að ekki sé verið að rannsaka hann sjálfan, heldur sé hann líklega fremur ráðgjafi. Þetta reyndist svo rétt.

Greiningarfulltrúar meta sem svo að auðæfi Guangchang séu rétt rúmlega 7 milljarðar bandaríkjadala eða 903 milljarðar íslenskra króna. Meðal annars á hann hluta í Forbes.