Hluthafafundur Hvals hf. samþykkti undir lok síðasta mánaðar að lækka hlutafé í félaginu og greiða hluthöfum, sem á móti hverfa úr hluthafahópnum, út tæplega 2,3 milljarða króna. Þá lækkaði félagið einnig eigin hluti sem höfðu orðið eign félagsins í kjölfar dóma Héraðsdóms Vesturlands um að félaginu bæri að leysa til sín hlutareign þriggja hluthafa.

Sagt var frá því í mars að þrír hluthafar í Hval, félögin Erna ehf., P126 ehf og Eldhrímnir ehf., sem eru í eigu Benedikts Einarssonar, Einars Sveinssonar og Ingimundar Sveinssonar, hefðu haft betur í málum sem þau hefðu höfðað til að fá bréf sín í Hval innleyst. Samtals áttu félögin þrjú 5,3% hlut og bar Hval að greiða þeim tæplega 1,3 milljarða króna. Samkvæmt upphæðum í dóminum fór sú innlausn fram á genginu 156 krónur á hlut.

Á hluthafafundinum nú var í fyrsta lagi samþykkt að lækka hlutaféð um 8,9 milljónir hluta að nafnverði með því að fella niður hluti sem voru í eigu félagsins sjálfs. Voru þar á ferð sömu hlutir og félaginu hafði verið gert skylt að innleysa samkvæmt dómi. Í kjölfar ráðstafananna mun útgefið hlutafé lækka um tæplega fimmtung.

Í annan stað samþykkti fundurinn að lækka hlutafé fyrir tæplega 13,9 milljónir hluta að nafnverði. Sú lækkun var bundin því skilyrði að hluthöfum, sem taka vildu þátt í henni, þyrftu að afhenda félaginu hlutabréf sín til ógildingar. Á fundinn var mætt fyrir hönd ríflega 90% eigenda og var tillagan samþykkt með 99,18% greiddra atkvæða. Sú útgreiðsla fór fram á genginu 165 krónur á hvern hlut.

Samkvæmt hlutafélagalögum ber að birta auglýsingu í Lögbirtingablaðinu um fyrirhugaða ráðstöfun sína til að kröfuhafar félagsins geti tryggt rétt sinn. Veita má undanþágu frá þeirri skyldu ef félagið sannar að réttindi kröfuhafa muni ekki fara forgörðum með hlutafjárlækkunni. Hvalur sótti um slíka heimild og fékk enda eignir félagsins, samkvæmt síðasta ársreikningi, rúmir 27 milljarðar króna, eigið fé 25 milljarðar og skuldir rúmir tveir milljarðar.