Meðlimur í bandaríska hernum, sem jafnframt starfar sem einn af lífvörðum Bandaríkjaforsetans Donald Trump, hefur greinst með kórónuveiruna. CNN greinir frá þessu.

Sérstök sveit innan bandaríska hersins er með það eina hlutverk að vernda Hvíta Húsið og forsetafjölskylduna. Sökum þessa er lífvarðasveitin oft í mikilli nálægð við forsetann og fjölskyldu hans.

Trump ku hafa komist í uppnám þegar hann frétti að starfsmaðurinn hafi greinst með veiruna og var hann í kjölfarið sendur í próf til að kanna hvort hann hafi smitast af starfsmanninum.

Hvíta Húsið hefur staðfest að frétt CNN eigi við rök að styðjast og segir í tilkynningu að Trump og varaforsetinn Mike Pence hafi farið í rannsóknir sem staðfestu að hvorugur þeirra hafi smitast af veirunni.