Björg Eva Erlendsdóttir.
Björg Eva Erlendsdóttir.
Björg Eva Erlendsdóttir, fjölmiðlakona, hefur verið kjörin í stjórn Ríkisútvarpsins ohf. Björg Eva er skipuð í stjórn fyrir hönd Vinstri grænna í stað Svanhildar Kaaber, sem jafnframt var formaður stjórnar. Björg Eva var starfsmaður Ríkisútvarpsins til margra ára.

Athygli vekur að í 8. grein laga um Ríkisútvarpið, þar sem fjallað er um stjórn félagsins, kemur fram að stjórnarmönnum skuli ekki hafa nokkurra hagsmuna að gæta í öðrum fjölmiðlafyrirtækjum eða fjölmiðlatengdum fyrirtækjum.

Orðrétt segir: „...Stjórnarmenn skulu í störfum sínum eingöngu hafa að leiðarljósi hagsmuni Ríkisútvarpsins ohf., fyrst og fremst skyldur þess til útvarps í almannaþágu. Þeir mega ekki, hvorki beint né óbeint, inna af hendi nokkurt starf, taka við greiðslu eða hafa nokkurra hagsmuna að gæta í öðrum fjölmiðlafyrirtækjum eða fjölmiðlatengdum fyrirtækjum sem leitt geta til árekstra við hagsmuni Ríkisútvarpsins ohf.“

Samkvæmt hluthafalista Smugunnar, vefriti Vinstri grænnda, er Björg Eva þó hluthafi í félaginu en hún á þar tæplega 5% hlut. Sambýliskona Bjargar Evru, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, er jafnframt ritstjóri Smugunnar.

Vinstri hreyfingin grænt framboð er stærsti einstaki hluthafi Smugunnar, með rúmlega 40% hlut, en þá á Lilja Skaftadóttir, listverkasali, tæplega 24% hlut. Lilja er jafnframt einn stærsti eigandi DV. Steingrímur J. Sigfússon er þriðji stærsti eigandi Smugunnar með tæplega 4,8% hlut en Björg Eva er fjórði stærsti eigandi félagsins.

Aðrir í stjórn RÚV eru Margrét Frímannsdóttir, Halldór Guðmundsson, Magnús Geir Þórðarson og Magnús Stefánsson. Varamenn í stjórn eru Ása Richardsdóttir, Lárus Ýmir Óskarsson, Hlynur Hallsson, Signý Ormarsdóttir og Þórey Anna Matthíasdóttir.