Vueling, stærsta flugfélag Spánar, hefur kynnt nýja þjónustu, Vueling Global, sem þróuð er í samstarfi við íslenska tæknifyrirtækið Dohop. Á hún að auðvelda viðskiptavinum flugfélagsins að bóka fjölbreytt úrval af tengiflugi um allan heim og tvinnar þar saman leiðakerfi Vueling og fjölmargra samstarfsaðila. Tækni Dohop gerir Vueling kleift að bjóða slíka þjónustu hnökralaust.

Er Vueling þriðja stærsta flugfélagið sem Dohop hefur samið við og 11. flugfélagið sem er viðskiptavinur félagsins. Tekjur Dohop af samningum sem þessum byggjast að mestu á þeim fjölda bókana sem fara í gegnum kerfið og þá þjónustu sem Vueling kaupir af félaginu. Vænta má að þessa samningur verði einn af þeim þremur stærstu sem félagið hefur gert.

„Vueling hefur náð góðum tökum á nýjustu tækni og getur því hreyft sig hratt og aðlagast breyttum kröfum viðskiptavina og markaðarins í heild. Ein slík krafa er að flugfélög geti afgreitt löng og oft flókin tengiflug um allan heim án vandkvæða, frá brottför til áfangastaðar. Með tækni og þjónustu Dohop getur Vueling tengt sín leiðakerfi við samstarfsaðila og boðið slíka þjónusta á skilvirkan hátt gagnvart viðskiptavinum sínum," segir Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop.

„Vueling hefur áður tengst öðrum flugfélögum á borð Qatar Airlines og American Airlines. Tækni Dohop mun hins vegar auðvelda okkur að bjóða upp á tengiflug með fleiri flugfélögum og svara aukinni eftirspurn eftir þeim, en rúmlega 10% af okkar farþegum 2019 bókuðu tengiflug. Samhliða aukinni þjónustu og vexti Vueling mun þessi lausn Dohop breyta El Prat í alþjóðlegan tengiflugvöll," segir Charlotte Dumesnil, framkvæmdastjóri sölu og dreifingar hjá Vueling.

Vueling er þó ekki fyrsta flugfélagið sem hleypir af stokkunum slíku leiðakerfi í samvinnu við Dohop. Meðal flugfélaga sem þegar nýta tækni Dohop nú þegar eru easyJet, Eurowings, Air France, Avianca, Jetstar og fleiri.