Alþingi afgreiddi frumvarp um hlutdeildarlán frá sér sem lög skömmu eftir klukkan níu í gærkvöld. Þingheimur var samróma um að afgreiða frumvarpið frá sér en aðeins einn þeirra þingmanna, sem staddur var í þinghúsinu þegar lögin voru samþykkt, greiddi því ekki atkvæði sitt. Það var Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Frumvarpið var lagt fram í vor en náði ekki fram að ganga. Fjöldi umsagna barst og lýstu margir yfir efasemdum um framkvæmdina. Var afráðið að vinna málið betur í sumar og mæla fyrir því í nokkuð breyttri mynd við 2. umræðu.

Nýsamþykkt lög gilda um einstaklinga eða fjölskyldur sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign eða hafa ekki átt eign síðastliðin fimm ár. Einstaklingar mega vera með tekjur að 7,5 milljónum króna á ári eða 10,5 milljónum króna á ári ef um sambúðarfólk er að ræða. 1,5 milljón króna bætist við fyrir hvert barn sem er á framfærslu.

Hlutdeildarlánin fela í sér að kaupandi þarf að leggja út 5% eigið fé við kaup á fasteign. Ríkið lánar þá allt að 20% á móti láni frá fjármálastofnun. Hafi einstaklingur minna en 5 milljónir króna í árstekjur lánar ríkið allt að 30%. Lánið er kúlulán sem greiðist almenn ekki til baka fyrr en við sölu á fasteigninni og tekur ríkið þá hlutfall af söluverði. Það er skilyrði fyrir veitingu lánsins að það sé veitt til kaupa á nýbyggingum eða hagkvæmum eldri byggingum sem samþykktar hafa verið af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS).

Til að umsækjandi geti fengið slíkt lán mega meðalafborganir fasteignalánsins, sem fjármálastofnun veitir, ekki nema meira en 40% af ráðstöfunartekjum. Það lán má að hámarki vera til 25 ára en þó getur HMS veitt undanþágu frá því ef umsækjandi tekur óverðtryggt fasteignalán. Ekki er hægt að taka verðtryggt lán til lengri tíma en 25 ára og fá hlutdeildarlán á móti.

Sem fyrr segir eru lánin almennt kúlulán sem endurgreiðast við sölu eða þá að endurgreiða skuli þau að tíu árum liðnum frá veitingu þess, hvort sem kemur á undan. Þó er heimilt að framlengja í láninu fimm ár í senn, að hámarki í 25 ár. Heimilt er að endurgreiða hlutdeildarlánið hvenær sem er. Lántaka ber að eiga lögheimili í fasteigninni og verður óheimilt að leigja hana út nema HMS samþykki slíka útleigu.

Áætlað er að fjórir milljarðar króna fari á ári í úrræðið og að það gildi í tíu ár. Um 400 slík lán verði veitt ár hvert og er fyrirkomulagið almennt að fyrstur kemur fyrstur fær. Verði umframeftirspurn ber að hafa lotterí um það hverjir fá lán og hverjir ekki.

Meðal þeirra sem gagnrýndu frumvarpið var fjármála- og efnahagsráðuneytið sem benti á að með því væri að veðja á að fasteignaverð myndi hækka. Nokkur áhætta væri fyrir ríkissjóð vegna þessa, til að mynda ef markaðurinn myndi lækka. Lögin gætu haft áhrif á stöðugleika í efnahagslífinu.

Alls voru 57 þingmenn staddir í þingsal þegar lögin voru samþykkt. Allir nema einn studdu þau. Óli Björn Kárason ákvað að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni.