Lögheimili þingmanna dreifast alls ekki jafnt um landið, þrátt fyrir skiptingu landsins í kjördæmi. Samkvæmt lögum um lögheimili verða allir að skrá lögheimili sitt þar sem þeir hafa fasta búsetu. Þó er sú undantekning á að alþingismönnum er heimilt að eiga áfram lögheimili í því sveitarfélagi þar sem þeir höfðu fasta búsetu áður en þeir urðu þingmenn.

Fimm prósent landsmanna búa í strjálbýli. Það gera hins vegar 14% þingmanna og 21% stjórnarþingmanna samkvæmt lögheimilisskráningu. Hlutfallslega færri þingmenn en landsmenn hafa lögheimili í þéttbýli á landsbyggðinni. 32% landsmanna hafa lögheimili á þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni, en um 30% þingmanna.

Helmingur stjórnarandstöðu vestan Snorrabrautar

Um 9% landsmanna búa í miðborg Reykjavíkur, Vesturbænum og á Seltjarnarnesi. Hins vegar eru 30% þingmanna með lögheimili á þessu svæði. 13 af 25 þingmönnum stjórnarandstöðunnar eru með lögheimili á svæðinu og 5 af 38 þingmönnum stjórnarflokkanna.

Í þeim hverfum Reykjavíkur sem liggja austan Elliðaáa, en því svæði tilheyra meðal annars Grafarvogur, Árbær og Breiðholt, búa yfir 56 þúsund manns eða 17% landsmanna. Einn þingmaður er með lögheimili á þessu svæði. Það er Guðlaugur Þór Þórðarson, sem býr í Grafarvogi. Hann er 1,6% þingmanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .