Már Guðmundsson seðlabankastjóri lagði til á síðasta fundi peningastefnunefndar að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum í 6%. Fjórir nefndarmenn af sex studdu tillöguna en einn vildi hækka vexti um 0,25 prósentur.

Fram kemur í fundargerð peningastefnunefndar að nefndin var sammála um að verðbólguhorfur til næstu tveggja ára hefðu versnað frá nóvemberspá bankans vegna þess að horfur væru á að slaki í þjóðarbúskapnum myndi snúast í spennu á tímabilinu. Nefndarmenn veittu því athygli að samkvæmt uppfærðri spá Seðlabankans myndi hagvöxtur aukast á næstu tveimur árum og slaki í þjóðarbúskapnum hverfa fyrr en áður var talið. Aðgerðir til þess að lækka verðtryggðar skuldir heimila myndu hafa nokkur áhrif á efnahagshorfur næstu ára. Af þeim sökum þyrfti að halda stýrivöxtum óbreyttum.

Sá sem talaði fyrir hækkun vaxta benti á að þrátt fyrir að verðbólguhorfur til næstu missera hefðu batnað væru horfur til næstu tveggja ára verri. Jafnframt væru verðbólguvæntingar til langs tíma enn nálægt 4% og hefðu lítið breyst þrátt fyrir hagstæðari þróun verðbólgu að undanförnu.

Nefndarmenn töldu hins vegar að þrátt fyrir að taumhald peningastefnunnar myndi herðast án frekari vaxtabreytinga að því marki sem verðbólga hjaðnaði frekar þyrftu nafnvextir Seðlabankans þó að óbreyttu að hækka samkvæmt verðbólguspá hans þegar nær dregur því að slaki snúist í spennu. Þróun nafnvaxta bankans myndi þó sem áður ráðast af framvindu verðbólgu.