*

mánudagur, 20. janúar 2020
Innlent 21. nóvember 2018 16:37

Einn vildi meiri vaxtahækkun

Einn nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands vildi hækka vexti um 0,5%.

Ritstjórn
Á myndinni eru sitjandi frá vinstri Katrín Ólafsdóttir, Már Guðmundsson formaður og Rannveig Sigurðardóttir. Standandi frá vinstri eru Þórarinn G. Pétursson og Gylfi Zoëga. Peningastefnunefnd Seðlabanki Íslands seðlabankastjóri
Aðsend mynd

Einn nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands vildi hækka vexti um 0,5% að því er fram kemur í fundagerð peningastefnunefndar sem birt var á vef Seðlabankans í dag.

Allir aðrir nefndarmenn voru sammála þeirri ákvörðun um að hækka vexti um 0,25% eins og gert var. Meginvextir bankans, þ.e.a.s. vextir af sjö daga bundnum innlánum nema nú um 4,5%. Ástæðan fyrir 0,25% hækkuninni var sögð vera óvissa um það hversu hratt myndi draga úr hagvexti og hvernig gengi krónunnar myndi bregðast við hækkun vaxta og lækkun hlutfalls sérstakrar bindiskyldu.

„Helstu rökin fyrir því að hækka vexti um 0,5 prósentur voru hins vegar þau að verðbólguhorfur hefðu versnað töluvert og verðbólguvæntingar hækkað það mikið að 0,25 prósentna hækkun vaxta dygði ekki til, enda yrði taumhald peningastefnunnar áfram minna en það var á októberfundi nefndarinnar þrátt fyrir þessa vaxtahækkun. Þá væru raunvextir bankans afar lágir þegar haft er í huga að spenna er enn í þjóðarbúskapnum," segir í fundargerðinni.