*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Innlent 29. september 2020 17:28

Einna sveigjanlegasti vinnutíminn hér

Fimmtungur Íslendinga sögðust hafa sveigjanlegan vinnutíma. Fleiri karlar njóta hans og geta fengið auðveldlega frí.

Ritstjórn
epa

Fjórðungur karla (25,7%) og tæplega fimmtungur 18,2%) kvenna voru með sveigjanlegan vinnutíma, en rúmlega 22% í heildina, á íslenskum vinnumarkaði á öðrum ársfjórðungi 2019 samkvæmt rannsókn Hagstofu Íslands.

Þar með er Ísland í hópi þeirra ríkja þar sem algengast er að vinnutíminn sé sveigjanlegur, en hærra hlutfall var í Tyrklandi, þar sem hlutfallið var 29,6%, Rúmeníu og Belgíu sem bæði voru með hlutfallið 22,6% og Finnlandi þar sem það var 22,5%.

Íslendingar eiga mun auðveldara en flestir í Evrópu með að fá eins til tveggja daga frí með þriggja daga fyrirvara, en þó segjast fleiri karlmenn eða 78% á móti 66% kvenna eiga mjög eða frekar auðvelt með það.

Segjast tæplega 36% hér á landi eiga mjög auðvelt með að fá frá frí, sem er með hæstu hlutföllum í Evróu, en einungis Slóvenía með 48,1%, og Malta, með 41,4%, mælast með hærra hlutfall.

Fleiri hér með sveigjanlegan vinnutíma en í Evrópu

Þegar horft er til þeirra hér á landi sem sögðust í könnuninni hafa sveigjanlegan vinnutíma að hluta til fór hlutfall þeirra svo upp í 28,4%. Nærri helmingur, eða 49,3%, sögðu að atvinnurekendur, eða viðskiptavinir stjórnuðu vinnutíma þeirra.

Hlutfallið hér á landi er nokkuð hærra en í Evrópu þar sem 18% íbúa höfðu sveigjanlegan vinnutíma á 2. ársfjórðungi síðasta árs, en 21% höfðu hann að hluta til. Þar var hins vegar hærra hlutfall sem sögðu viðskiptavini eða atvinnurekendur stjórna vinnutímanum eða 61% svarenda.