*

mánudagur, 18. nóvember 2019
Innlent 10. júlí 2019 15:35

Græða 90 milljónir á .is léninu

Þjónustufyrirtækið sem sér um skráningu .is netléna hefur hagnast um tæplega 800 milljónir á einum áratug.

Ritstjórn
Jens Pétur Jensen er framkvæmdastjóri og stærsti eigandi ISNIC - Internet á Íslandi hf.
Aðsend mynd

Félagið ISNIC - Internet á Íslandi hf. hagnaðist um 90 milljónir króna á síðasta árið, en í heildina hefur félagið hagnast um nærri 800 milljónir króna síðustu 10 árin að því er Morgunblaðið greinir frá.

Á síðasta ári námu tekjur félagsins, sem er eitt um það að skrá lén og reka nafnaþjónustu fyrir íslenska .is netlénið, 298 milljónum króna svo framlegðin er yfir 30%, en allur hagnaður félagsins var greiddur út til hluthafa.

Stærstu eigendur þess er fyrst framkvæmdastjórinn Jens Péturs Jensen (29,51%), síðan Íslandspóstur (18,66%), Magnús Stefánsson (16,77%) og Bárður Hreinn Tryggvason (16,24%), en aðrir stærstu eigendur félagsins eru meðal annars Síminn, Alþingi, Friðrik Skúlason og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

Hagnaðurinn minnkaði eilítið frá árinu 2017 þegar hann nam 97 milljónum króna, en bæði árin 2016 og 2015 nam hagnaðurinn 89 milljónum, en 92 milljónum árið 2014, 75 milljónum 2013, 62 milljónum árið 2012, 55 milljónum árið 2011, heilum 134 milljónum árið 2010, en einungis 8 milljónum árið 2009. Samtals gera þetta 791 milljón króna á einum áratug.