Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa aukið innflutning á pelsum, vínum, úrum, fólksbílum og gæludýrum. Í fyrra nam verðmæti innflutnings á vörum af þessum toga 645,8 milljónum dala sem er rúmlega tvöfalt meira en árið 2011. Vörurnar eru m.a. notaðar til að hygla ráðamönnum í Norður-Kóreu, að sögn bandaríska vikuritsins Time .

Upplýsingarnar eru fengnar úr skýrslu stjórnvalda í Suður-Kóreu.

Í umfjöllun Time segir að ljóst sé að innflutningur á ýmsum lúxusvarningi hafi aukist í Norður-Kóreu eftir að Kim Jong-un tók við valdataumum af föður sínum, Kim Jong-il, rétt fyrir jólin árið 2011. Á sama tíma og mokað hafi verið undir ráðamenn hafi ríkið ekki efni á að fæða landsmenn. Norður-Kórea er einmitt á lista Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna yfir þau 34 lönd sem þurfa á alþjóðlegri aðstoð að halda til að seðja svanga landsmenn.

Þessu til viðbótar telja mannréttindasamtökin Amnesty International og Unicef frá því að árið 2006 hafi næstum helmingur barna verið vannærður og þriðjungur mæðra. Ástæðan fyrir vannæringunni er verðhækkun stjórnvalda á matvöru eftir að vopnavæðing ríkisins var keyrð af stað af miklum krafti árið 2002.