Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, lét sjá sig mun oftar á opinberum vettvangi í fyrra en árið 2012. Samkvæmt upplýsingum suður-kóreska dagblaðsins Chosun Ilbo sást einræðisherrann ungi, sem fagnaði þrítugsafmæli á dögunum, 209 sinnum við ýmis tækifæri í fyrra sem er 33% oftar en árið 2012. Kim Jong Un tók við af föður sínum, Kim Jong Il, sem lést í desember árið 2011.

Í 71 skipti var hann viðstaddur ýmsa atburði sem tengjast framkvæmdum hins opinbera, svo sem opnun vatnsrennibrautargarðs í höfuðborginni Pyongyang og skíðaaðstöðu í Kangwon-héraði. Þá skoðaði hann aðstöðu hersins í 62 skipti og sótti 48 menningarviðburði.

Sá sem oftast fylgdi Kim Jong Un var Jang Song Taek, annar valdamesti maður Norður-Kóreu. Ljóst er að hann kemst ekki oftar á blað en Kim Jong Un lét taka hann af lífi í desember síðastliðnum fyrir landráð og spillingu.