Englandsbanki, seðlabanki Bretlands ákvað á fundi sínum að halda stýrixöxtum óbreyttum. Nefndarmenn í peningastefnunefndinni kusu allir níu með ákvörðuninni. Bankinn lækkaði einnig spá sína á hagvexti í Bretlandi, hækkun launa og verðbólgu.

Mark Carney, seðlabankastjóri, varaði lántaka þó við því að venjast þeim lágu vöxtum sem nú eru við líði, Stýrivextir eru nú í 0,5% og hafa síðustu sjö ár verið í sögulegu lágmarki. Carney sagði að það væri líklegra en ekki að bankinn myndi hækka stýrivexti á næstu tveimur árum. Hann sagði einnig að hann vildi ekki endurtaka mistök fortíðarinnar þegar hækkun vaxta hefði haft slæm áhrif á þá sem eru að greiða af húsnæðislánum. Hann bætti við að bankinn myndi reyna að senda skýr skilaboð um áætlanir bankans.

Lækkun hrávöruverðs hefur haldið aftur af verðbólgu í landinu, en hún er nú í 0,2%. Að mati bankans mun verðbólga vera undir 1% út þetta ár.