Fjöldi lausra skrifstofufermetra í helsta fjármála- og viðskiptahverfi landsins, frá Borgartúni í vestri að Skeifunni í austri, hefur minnkað um helming frá haustinu 2013. Það sama gildir um laust rými í Smáranum og Mjódd. Fyrir tveimur árum voru hátt í 5.000 fermetrar skrifstofuhúsnæðis lausir í miðborg Reykjavíkur en nú er nánast ekkert eftir.

Þetta kom fram í kynningu Garðars Hannesar Friðjónssonar, forstjóra Eikar, á markaðnum með atvinnuhúsnæði sem fram fór eftir kynningu á árshlutauppgjöri félagsins síðasta mánudag.

í samtali við Viðskiptablaðið segir Garðar að það séu einkum þrír þættir sem drífi áfram eftirspurn eftir skrifstofuhúsnæði. Í fyrsta lagi þýði breytt aldurssamsetning þjóðarinnar og almenn mannfjöldaþróun að fólki á aldrinum 20-70 ára fjölgar um 0,8% að meðaltali á ári næstu fimmtán árin samkvæmt Hagstofunni. Í öðru lagi sé atvinnustig almennt að aukast, en til að mynda gerðist það í septembermánuði að fjöldi starfandi var meiri heldur en þegar hann var mestur um mitt ár 2008.

Fækkun árganga eykur hagkvæmi

Í þriðja lagi hafi stytting skólagöngu áhrif á skrifstofumarkaðinn og leiði til töluverðs sparnaðar til lengri tíma. „Bæði í formi þess að menntakerfið kostar minna og síðan ertu kominn með tvo árganga sem eru í raun að búa til verðmæti. Einhvers staðar þurfum við að koma þessu fólki fyrir til lengri tíma séð,“ segir Garðar.

Undanfarin misseri hefuratvinnuleysi ungs, menntaðs fólks verið þrálátt og mætti ætla að skortur á störfum fyrir þann hóp á vinnumarkaði myndi endurspeglast í minni eftirspurn eftir skrifstofuhúsnæði. Garðarhefur þó ekki áhyggjur af þróuninni. „Ég myndi halda að það taki bara tíma. Fólk fer í önnur störf og byggir upp smá þekkingu og reynslu af því að vinna,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .