Tónlistarhátíðin Iceland Airwaves byrjaði af krafti í vikunni. Mikið er í boði en tugir tónlistarmanna koma á hverju kvöldi fram bæði í Hörpum og á ýmsum stöðum í miðborginni.

Í gærkvöldi voru viðburðirnir rúmlega 60 og því aðeins hægt að sjá brot af húllumhæinu. Tónleikar Hjaltalín voru með þeim betri sem blaðamaður Viðskiptablaðsins sá. Þeir hófust á lögum af nýju plötunni Enter 4 en fljótlega bættust við smellir af eldri plötum. Tónleikagestir voru sammála um að Hjaltalín hafi átt kvöldið.

Af öllu því sem í boði var kveinkaði blaðamaður sér yfir því að hafa misst af Prins Póló. Það skrifast reyndar á að mæta of seint á svæðið.

Rokksveitirnar Endless Dark og Muck voru fínar sárabætur í þungarokkskompunni  í Norðurljósasal Hörpunnar. Endless Dark spilar fantaflotta blöndu af Mastodon og einhverju sem kalla má sykurhúðað vælukjóarokk og var á árum áður tengt við handboltarokk. Söngvarinn er eins og smágerð eftirmynd af Eminem, stæltur og stuttklipptur og tattúveraður í bak og fyrir. Bandið var ótrúlega þétt og flott. Að öðrum ólöstuðum átti bassaleikarinn sviðið. Hann virtist um eitt kíló og blanda af þeim Sid Vicious í Sex Pistols og Steve Harris í Iron Maiden.

Svipaða sögu var að segja af fjórmenningunum í Muck. Þeir virðast öðru hvoru megin við tvítugt og álíka þungir og bassaleikari Endless Dark. Þeir voru allir í flottum gír og komu örvæntingafullu tryllingsrokkinu sínu vel til skila. Bravó fyrir þeim!

Jón Aðalsteinn er blaðamaður Viðskiptablaðsins.