Gylfi Sigfússon á langan feril að baki hjá Eimskip og hefur verið forstjóri félagsins frá maí 2008. Hann hóf feril sinn í flutningageiranum sem framkvæmdastjóri hjá Tollvörugeymslunni hf. áður en hann hélt til Bandaríkjanna árið 1996. Þar var Gylfi meðal annars yfir rekstri Eimskips í Bandaríkjunum og Kanada þar til hann sneri aftur heim til Íslands árið 2008 og tók við starfi forstjóra. Alls á hann því 26 ára feril að baki í flutningum þar sem hann hefur kynnst öllum hliðum greinarinnar.

Hvernig var að snúa aftur heim þegar allt var að hrynja árið 2008?

„Það var mikill skóli að koma hingað í starfsviðtal á föstudegi í lok maí og vera síðan hent í sjónvarpið á mánudegi til að skýra út stöðu félagsins. Ég hafði kannski lítið um það að segja eftir að hafa verið í Bandaríkjunum í 12 ár, en þannig byrjaði þetta. Þetta hefur verið eins og 2-3 MBA og masters-námskeið í endurskipulagningu á fyrirtækjum og rekstri. Ég var ekki mjög heppinn með árferðið 2008 til 2012, gámaeiningar sem voru að fara í gegnum Sundahöfn voru 150.000 talsins árið 2007 og við erum núna fyrst að ná aftur því magni, nánast tíu árum síðar. Við erum komin þangað sem við vorum, á meðan stórar hafnir á borð við Quingdao í Kína þar sem við erum með skrifstofu voru á þeim tíma með sjö milljónir eininga en eru núna komin upp í 17 milljónir. Það hefur verið okkar barátta undanfarin ár að komast aftur á réttu brautina. Miðað við fjölda gáma í Sundahöfn er það loksins að gerast núna.“

Með 58 starfsstöðvar í 19 löndum

Geturðu sagt mér almennt frá félaginu og umfangi þess?

„Eimskip var stofnað árið 1914 með það að leiðarljósi að tengja Ísland við umheiminn fyrir allan inn- og útflutning. Farþegaflutningar urðu jafnframt hluti af þjónustuframboði félagsins þar sem eina leiðin til að komast til og frá landinu var að sigla með kaupskipum. Mikil áhersla var lögð á að við Íslendingar færum með þennan mikilvæga málaflokk sjálf og værum þannig ekki háð öðrum þjóðum varðandi flutninga, enda var þetta einn af hornsteinum þess að við gætum orðið sjálfstæð þjóð, óháð öðrum. Eimskip er með hlutabréf sín skráð á Nasdaq Iceland og félagið rekur nú 58 starfsstöðvar í 19 löndum, er með 20 skip í rekstri og hefur á að skipa um 1.650 starfsmönnum. Hlutverk félagsins er að vera leiðandi flutningafyrirtæki á Norður-Atlantshafi með tengingar við alþjóðlega markaði og sérhæfingu í flutningsmiðlun um allan heim, með þá framtíðarsýn að vera framúrskarandi í flutningalausnum og þjónustu til handa viðskiptavinum sínum. Um það bil helmingur tekna Eimskips kemur frá starfsemi utan Íslands og á síðustu tveimur árum hefur mikil áhersla verið lögð á að dreifa áhættunni með aukinni starfsemi erlendis, en erfitt var að fara í gegnum erfiðleikana sem tengdust bankahruninu á Íslandi. Þáttur erlendrar starfsemi mun vaxa enn frekar á komandi árum ef plön félagsins um vöxt í gegnum fjárfestingar erlendis ganga eftir.“

Nánar er rætt við Gylfa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .