*

föstudagur, 19. júlí 2019
Innlent 26. október 2017 13:49

Eins og að keppa við Manchester United

Forstjóri Haga líkir komu Costco til landsins við að Manchester United spili í Pepsi-deildinni.

Ritstjórn
Finnur Árnason er forstjóri Haga.
Gígja Dögg Einarsdóttir

„Við höfum sagt það hér inni að þetta sé eins og að Manchester United komi og spili í Pepsi-deildinni með alla sína leikmenn og alla sína peninga,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga, um þær breytingar sem orðið hafa á smásölumarkaði eftir komu Costco til landsins. Enda bendir Finnur á að Costco sé næststærsti smásali heims.

Hagnaður Haga dróst saman um nærri helming í fyrsta heila ársfjórðungsuppgjöri Haga frá opnun Coscto. Hagnaður Haga í júní, júlí og ágúst nam 682 milljónum króna en 1.213 milljónum króna á sama tímabili fyrir ári.

Framlegð á ársfjórðungnum lækkaði úr 5.123 miljónum í 4.461 milljón króna milli ára og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) úr 1.807 milljónum króna í 1.101 milljón króna á sama tímabili. Finnur segir Haga hafa undirbú­ið sig mjög vel fyrir breytingarnar. „Þetta eru krefjandi tímar og í sjálfu sér margir þættir sem eru óhagstæðir.“

Fjórir þættir lita afkomuna

Það séu einkum fjórir þættir sem hafi haft áhrif á afkomuna: Styrking krónunnar, gjörbreytt samkeppnisumhverfi, lokanir og breytingar á verslunum Haga og innlendar kostnaðarhækkanir, þar á meðal umtalsverðar launahækkanir.

„Krónan er búin að styrkjast um rúmlega 15%,“ segir Finnur. Hagar hafi haldið sömu framlegðarpró­sentu og því hafi styrking krónunnar haft í för með sér lægri framlegð í krónum talið. Því hafi viðskiptavinir Haga notið styrkingar krónunnar í formi lægra vöruverðs að sögn Finns.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.