Greinandi Jakobsson Capital segir hafa verið tilhneigingu í heiminum til að líta á bankarekstur sem „einhver geimvísindi“, en sjálfur telur hann að best megi líkja honum við rekstur hraðfrystihúss, „enda ekki mikið flóknari í grunninn“. Þetta kemur fram í verðmati greiningarfyrirtækisins, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Sjá einnig: Góð arðsemi og lág ávöxtunarkrafa

Í samlíkingunni sé vaxtastigið hráefnaverðið, og Fjármálaeftirlitið leiki hlutverk Matvælaeftirlitsins. Í báðum tilfellum geti of íþyngjandi kröfur við eftirlit valdið almenningi skaða. Í verðmatinu sagði greinandi einnig að bankastarfsemi væri ekki mikið flóknari en annar rekstur í grunninn; lykilatriðin væru virkur vaxtamunur og kostnaður á móti þjónustutekjum.

„Búnir að fá það sem þeir þurftu“
Bankar og fjárfestingarsjóðir hafa dregið verulega úr eignarhaldi sínu í Arion banka, sem hefur fallið um tæpa tvo þriðju hluta frá því í lok september. Ber þar helst að nefna Taconic Capital Advisors, sem hefur selt rétt rúman 10% hlut frá áramótum, og á nú 13,1% í bankanum, og Sculptor Capital Management, sem átti 9,9% hlut í septemberlok, en hefur síðan selt hann allan.

Erlent eignarhald Arion
Erlent eignarhald Arion
© vb.is (vb.is)

Snorri Jakobsson, eigandi Jakobsson Capital telur einfaldar og óspennandi skýringar á því hvers vegna erlendir eigendur bankans hafi minnkað svo við sig í honum nýverið. Þumalputtaregla fagfjárfesta sé að selja hlutabréf ef verð þeirra lækkar um 15-20% eða hækkar um 30-40%.

„Alveg óháð verðmati eða því hvort þér finnst vera tækifæri til staðar eða ekki. Þeir voru búnir að taka einhverja 30% ávöxtun og ég held að þeir hafi bara verið búnir að fá það sem þeir þurftu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .