*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 28. febrúar 2021 10:12

Eins og að reka hraðfrystihús

Jakobsson Capital segir bankarekstur ekki flóknari en annan. Dregið hefur mikið úr erlendu eignarhaldi Arion nýlega.

Júlíus Þór Halldórsson
Snorri Jakobsson er stofnandi og eigandi Jakobsson Capital.

Greinandi Jakobsson Capital segir hafa verið tilhneigingu í heiminum til að líta á bankarekstur sem „einhver geimvísindi“, en sjálfur telur hann að best megi líkja honum við rekstur hraðfrystihúss, „enda ekki mikið flóknari í grunninn“. Þetta kemur fram í verðmati greiningarfyrirtækisins, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Sjá einnig: Góð arðsemi og lág ávöxtunarkrafa

Í samlíkingunni sé vaxtastigið hráefnaverðið, og Fjármálaeftirlitið leiki hlutverk Matvælaeftirlitsins. Í báðum tilfellum geti of íþyngjandi kröfur við eftirlit valdið almenningi skaða. Í verðmatinu sagði greinandi einnig að bankastarfsemi væri ekki mikið flóknari en annar rekstur í grunninn; lykilatriðin væru virkur vaxtamunur og kostnaður á móti þjónustutekjum.

„Búnir að fá það sem þeir þurftu“
Bankar og fjárfestingarsjóðir hafa dregið verulega úr eignarhaldi sínu í Arion banka, sem hefur fallið um tæpa tvo þriðju hluta frá því í lok september. Ber þar helst að nefna Taconic Capital Advisors, sem hefur selt rétt rúman 10% hlut frá áramótum, og á nú 13,1% í bankanum, og Sculptor Capital Management, sem átti 9,9% hlut í septemberlok, en hefur síðan selt hann allan.

Snorri Jakobsson, eigandi Jakobsson Capital telur einfaldar og óspennandi skýringar á því hvers vegna erlendir eigendur bankans hafi minnkað svo við sig í honum nýverið. Þumalputtaregla fagfjárfesta sé að selja hlutabréf ef verð þeirra lækkar um 15-20% eða hækkar um 30-40%.

„Alveg óháð verðmati eða því hvort þér finnst vera tækifæri til staðar eða ekki. Þeir voru búnir að taka einhverja 30% ávöxtun og ég held að þeir hafi bara verið búnir að fá það sem þeir þurftu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.