Þetta hafa verið skemmtilegir og lærdómsríkir mánuðir, enda er það alltaf svolítið eins og að setjast á skólabekk að byrja í nýju starfi. Ég hef fengið tækifæri til að kynnast nýrri og áhugaverðri atvinnugrein og nýjum og skemmtilegum vinnufélögum sem vita upp á hár hvað þau eru að gera. Það eru því mikil forréttindi að fá að læra af slíkum hópi," segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga, um fyrstu mánuðina í nýju starfi.

Finnur, sem starfaði áður sem forstjóri Origo, tók við forstjórastöðunni hjá Högum af Finni Árnasyni síðastliðið sumar. Hann leggur áherslu á að hann taki við mjög góðu búi af forvera sínum. „Starfsemi Haga hefur um langt skeið verið farsæl og það hefur einnig verið ánægjulegt að fá að kynnast því hvað starfið sem er unnið innan dótturfélaga Haga er í raun öflugt. Dótturfélögin skara fram úr hvert á sínu sviði. Vöruhús Haga eru hryggjarstykki í verslunarrekstri okkar vegna þeirrar hagkvæmni sem við náum í innflutningi og dreifingu. Miðlæg vöruhús, létt yfirbygging og skilvirkur rekstur hefur gert Bónus kleift að bjóða upp á hagkvæmasta verslunarkostinn í yfir 30 ár. Innviðir Haga gera Hagkaup jafnframt kleift að bjóða skemmtilega upplifun í formi fjölbreytni, úrvals og gæða. Undanfarin ár hefur síðan rekstur Olís, sem á sér langa og farsæla sögu, verið fléttaður inn í þetta sterka vistkerfi."

Finnur segir það helst hafa komið sér á óvart hversu umfangsmikil vinna liggi að baki því sem við göngum almennt að sem sjálfsögðum hlut, snyrtilega framsettum vörum í hillum verslana. „Við neytendur getum gengið inn í nánast hvaða verslun sem er og keypt nánast allt sem hugur girnist frá flestum landshlutum og heimshornum. Við tökum þessu sem sjálfsögðum hlut en aðfangakeðjan sem liggur þarna að baki er bæði umfangsmikil og flókin, sérstaklega í því umfangi sem er í okkar starfsemi. Ég hef lengi verið áhugasamur um matvöruverslanir en eftir að hafa kynnst þeim aðeins betur hef ég öðlast enn frekari virðingu fyrir því flókna verkefni sem býr þarna að baki."

Finnur segir að viðskiptavinirnir séu alltaf í forgrunni hjá Högum, enda séu það þeir sem haldi fyrirtækinu gangandi. „Við erum í vinnu fyrir viðskiptavini okkar og mælum okkar árangur eftir þeirra ánægju og hvert þeir beina sínum viðskiptum. Viðskiptavinir okkar hafa fjölbreyttar þarfir og við viljum koma til móts við þá af fremsta megni með því að bjóða upp á gott úrval, góða þjónustu, jákvæða upplifun, þægindi og hagstætt verð."

Nánar er rætt við Finn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .