Styrking íslensku krónunnar hefur verið fólki í íslensku viðskiptalífi gífurlega hugleikið málefni upp á síðkastið. Í nýrri greiningu Capacent, er reynt að svara spurningu sem skotið hefur upp kollinum að undanförnu: Hvort sé skynsamlegt að taka stöðu á móti krónunni og veðja á gengisveikingu? Þrátt fyrir að raungengi krónunnar sé sterkt og líklega yfir jafnvægis raungengi, þá líkir greiningardeildin því að ætla að hagnast á gengisveikingu krónunnar til skamms tíma eins og að standa á móti snjóflóði.

Capacent bendir á að líkurnar á gengisveikingu sé ekki miklar í ár og að flestar spár geri ráð fyrir 160 milljarða króna viðskiptajöfnuði í ár. „Seðlabankinn hefur hætt reglulegum gjaldeyriskaupum og spár um fjölgun ferðamanna í ár gera ráð fyrir allt að 40% fjölgun. Meira að segja álverð er hátt sem er þó orðin afgangsstærð er varðar sveiflur í gengi krónunnar á síðustu árum,“ segir í greiningunni. Að minnsta kosti dugði ekki gjaldeyriskaup Seðlabanka Íslands í fyrra upp á 41,7 milljarða króna til að sporna við gengisstyrkingu.

Einnig er bent á að á árunum 2004 til 2005 var raungengi krónunnar jafn hátt og það er í dag, en þrátt fyrir það veiktist krónan ekki fyrr en ríflega 3 árum síðar. Þó er staðan allt önnur í dag en þá. Bent er á að afgangur er á viðskiptajöfnuði og því hefur styrking krónunnar verið „sjálfbær“ að mati greiningardeildarinnar. Einnig er vísað til þess að mikil fylgni er á milli gengis krónu og viðskiptajafnaðar. Sömuleiðis eiga Íslendingar meiri eignir erlendis en þeir skulda ekki öfugt líkt og það var áður fyrr.