Birgir Jakobsson, viðmælandi Viðskiptablaðsins í síðustu viku, lætur af embætti landlæknis um mánaðamótin og hefur þá störf sem aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra. Ráðningin kom upp á lokametrunum. „Þetta er verulega glæsilegur hópur en ég var svolítið eins og afi þeirra,“ segir Birgir um fund sinn með aðstoðarmönnum ráðherra ríkisstjórnarinnar.

„Heilbrigðismálin eru mér mjög hugleikin og ég kem til með að vinna með ráðherra og hefði ekki tekið þetta að mér nema vegna þess að ég finn að ráðherra hefur mikinn áhuga á að koma til leiðar umbótum í kerfinu. Þá finnst mér það áhugavert hvað ég geti gert til að hjálpa til í því sambandi. Ég veit hvað ég kann og hvaða grundvallargildismat ég hef. Ef ég finn að ég get unnið út frá þeim gildum í því starfi þá er það flott mál,“ segir Birgir.

„Ég lít líka á það sem einn aðalkostinn við það að skipta um starfsvettvang að ég þarf ekki að sitja í svona viðtölum,“ segir Birgir og hlær. „Ég sé mig í bakgrunninum sem faglegan aðstoðarmann og er reiðubúinn að miðla minni faglegu þekkingu meðan ég geng uppréttur.“

Þreyttur á enn einni umræðunni

Birgir hefur ekki legið á skoðunum sínum varðandi þá að því er virðist endalausu umræðu um framtíðarstaðsetningu Landspítalans, eins og sást í athugasemdum embættisins við nýlega þingsályktunartillögu Miðflokksins, þar sem hann tætti tillöguna í sig eins og stóð í fyrirsögn á vef RÚV.

„Þegar ég skrifaði þessa umsögn var ég orðinn svolítið þreyttur á þessari umræðu eina ferðina enn því ég er búinn að heyra svo oft að það sé búið að taka þessa ákvörðun. Það gerði það að verkum að í þessari umsögn spurði ég hvort þetta væri gert af einhverri alvöru. Það átti að útbúa skýrslu sem átti að vera tilbúin í maí og svo átti bara að byrja að vinna. Ég hef bara aldrei heyrt neitt þessu líkt,“ segir Birgir og grefur öðru sinni andlitið í lófa sér til að lýsa undrun sinni.

„Það var ástæðan fyrir því að ég var kannski dálítið kærulaus í þessari umsögn. En meinti nákvæmlega það sem ég sagði,“ segir Birgir, sem saknar þess frá Svíþjóð að þegar búið sé að taka ákvarðanir þá hefjist framkvæmdir, ólíkt því sem hefur verið í tengslum við nýjan Landspítala.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .