*

mánudagur, 17. júní 2019
Fólk 3. september 2017 19:04

Eins og fegurðardrottning

Haukur Bent Sigmarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Eleven Experience á Íslandi.

Ritstjórn
Eva Björk Ægisdóttir

Eleven Experience á Íslandi, sem rekur lúxushótelið Deplar Farm í Fljótum í Skagafirði, hefur ráðið Hauk Bent Sigmarsson sem framkvæmdastjóra. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Colorado í Bandaríkjunum, en það sérhæfir sig í rekstri lúxushótela, íbúða og skíðaskála á framandi áfangastöðum víða um heim.

Haukur segir þjónustu fyrirtækisins vera sérsniðna að hverjum ferðamanni en hann sér um daglegan rekstur á hótelinu og fleiri eignum fyrirtækisins. „Samskiptin við viðskiptavininn hefjast alveg þrjátíu dögum áður en hann kemur til landsins þar sem hann svarar ítarlegum spurningalista sem snertir á öllum helstu þáttum dvalar, allt frá fatastærðum til uppáhaldsmatar og drykkjar og hvað honum finnst skemmtilegast,“ segir Haukur.

„Út frá þeim upplýsingum eru allar ferðir hans og dagskrá sniðin. Þá er tekið á móti honum með uppáhaldsdrykknum hans þegar hann mætir, meðan kannski uppáhaldslagið hans er í gangi, og svo eru vöðluskór í hans stærð tilbúnir fyrir hann þegar hann fer að veiða.“

Haukur starfaði í tíu ár í lögreglunni áður en hann komst í kynni við ferðamannaiðnaðinn. „Frá aldamótum kom ég mikið að alls kyns akstursverkefnum í tengslum við kvikmyndaframleiðslu, og loks kom að því að ég sótti um launalaust leyfi til að fara yfir til Securitas þar sem ég stofnaði lúxusakstursþjónustuna Servio fyrir ferðamenn,“ segir Haukur.

„Ég byrjaði algerlega á botninum þegar ég var að kynna fyrir fólki þessa þjónustu sem var þá ekki til í neinum mæli á landinu. Það er skemmtilegt að segja frá því að hún blómstraði. Ég fór frá því að vera einn með einn bíl í það að við vorum sex fastir starfsmenn, yfir 20 verktakar og á ellefu bílum þremur árum seinna, þar á meðal eina stærstu og flottustu lúxusrútuna á landinu.“

Haukur er giftur Önnu Jónsdóttur sem starfar fyrir KPMG og saman eiga þau þrjú börn á aldrinum þriggja til ellefu ára. „Mín áhugamál, segi ég eins og týpísk fegurðardrottning, eru fjölskyldan og útivist. Ég er mikill veiðimaður, á hvort tveggja stöng og byssur,“ segir Haukur svo ljóst er að áhugamálin passa vel við starfsemi fyrirtækisins.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is