Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segist vilja afnema verðtryggingu hratt og að það sé tiltölulega einföld aðgerð. Þetta sagði Sigmundur Davíð í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag.

„Sem betur fer þá er meginmunurinn á niðurstöðum minnihlutans og meirihlutans tímafaktorinn, það er að segja hversu langan tíma þeir telja að það muni taka að afnema verðtryggingu," sagði Sigmundur Davíð.

„Minnihlutinn telur að það sé hægt, með ákveðnum mótvægisaðgerðum, að fara í þetta strax. Meirihlutinn telur mjög hættulegt að gera það á einu bretti. Það má kannski lýsa afstöðu meirihlutans þannig að hann sé mjög gagnrýninn á verðtrygginguna og það þurfi að fara úr þessu kerfi. Hún sé eins og fúi í stoðum efnahagslífsins en það megi ekki skipta um allar stoðirnar samtímis. Það þurfi að byrja á nokkrum og klára það svo því annars hrynur húsið."

„Þarna erum við með tvenns konar álit sem bæði marka gríðarleg tímamót og fela bæði í sér að afnema verðtrygginguna. Ég vil að þetta gerist eins hratt og mögulegt er án þess að skapa hættur."

„Við viljum ekki að þetta leiði til slysa, að þetta leiði til þess að fólk lendi í verulegum greiðsluerfiðleikum vegna þess að greiðslubyrðin aukist til mikilla muna einn mánuðinn. Við förum hins vegar í þetta eins hratt og mögulegt er og ég held að í báðum álitum geti menn komist að þeirri niðurstöðu að það sé tiltölulega einföld aðgerð að afnema verðtryggingu.“