*

fimmtudagur, 25. febrúar 2021
Fólk 17. janúar 2021 19:01

Eins og geimfari að koma til baka

Sesselía Birgisdóttir, nýr forstöðumaður hjá Högum, fann eftir 10 ár í Svíþjóð að hægt var að gera mun meira stafrænt þar en hér.

Höskuldur Marselíusarson
Sesselía Birgisdóttir er nýr forstöðumaður nýsköpunar og markaðsmála hjá Högum.
Gígja Einarsdóttir

„Það hefur lengi verið draumur hjá mér að starfa í verslunargeiranum enda spennandi breytingar framundan þar. Hlutverk mitt verður líkt og hjá Íslandspósti að aðlaga þjónustuna að framtíðarkröfum viðskiptavinina með því að greina þarfirnar, ekki síst þær sem verða á morgun, og hvaða tæknilausnir mæta þeim. Síðan verð ég líkt og áður í markaðs- og þjónustumálum, og vörumerkjaumgjörðinni í sinni breiðustu mynd," segir Sesselía Birgisdóttir, nýr forstöðumaður nýsköpunar og markaðsmála hjá Högum.

„Viðskiptavinirnir hjá Póstinum voru óánægðir með langan biðtíma, en þar tókst okkur á einu ári að tvöfalda afhendingarnetið með 30 nýjum pósthólfum og nýjum afhendingarmáta, Pakkaporti, inni á stöðvum Orkunnar og víðar. Jafnframt er að koma nýtt app þar eftir áramótin auk þess sem fjölmargir ferlar voru gerðir stafrænir, til dæmis með tæknilegri bestun í útkeyrslunni. Nú er betur hægt að vita hvenær þeir fara í hverja heimsókn sem skilaði sér líka í betri upplýsingagjöf til viðskiptavina þar sem þeir fengu sms með hálftímaslotti um afhendingu sem áður voru fimm tímar."

Sesselía og maður hennar, Ragnar Fjalar Sævarsson nýsköpunarráðgjafi, stofnuðu fyrirtækið Red Apple Apartments í Svíþjóð utan um bókunarhugbúnað sem þau smíðuðu árið 2008. Saman eiga þau þrjú börn á aldrinum 11, 17, og 23 ára.

„Við flytjum út til þess að fara í mastersnám en svo líkaði okkur svo vel að vera í Lundi að við ákváðum að vera lengur. Ég fór því í annað mastersnám í stjórnun mannauðs með áherslu á þekkingar- og breytingastjórnun til þess að stíla inn á komandi tíma en hugmyndin að fyrirtækinu kom í kjölfarið á því. Síðan ætlaði ég að fara út í ráðgjöf í Svíþjóð en fæ atvinnutilboð hjá Advania og við tökum eiginlega skyndiákvörðun um að elta tækifærið og flytja aftur heim," segir Sesselía.

„Við höfum alltaf talað um að upplifunin af því sé pínulítið eins og geimfari að koma til baka, það er einhvern veginn annað súrefnisstig hérna, og þó maður sakni sænska vorsins þegar allt fer í blóma á einni nóttu þá fær maður ferska íslenska loftið í staðinn. Það sem ég rakst þó á fyrst var að það var ýmislegt sem maður var orðinn vanur að geta gert stafrænt sem ekki var orðið jafnalgengt hér eins og netverslun, fylla út ýmis form og bóka tíma."

Sesselja segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á ferðalögum og þar hafi verið hæg heimatökin meðan þau ráku bókunarfyrirtækið. „Við vorum að leigja út íbúðir í 120 borgum í Evrópu, og fórum við oft í þær í ýmsum löndum til að einbeita okkur að vinnu í hugbúnaðarsmíðinni. Síðan höfum við líka farið til Asíu í stundum lengri dvalir, en þar standa Hong Kong og sérstaklega Taíland upp úr sem svolítið okkar heimastaður."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.