Hæg breytileg átt er nýr vettvangur þverfaglegrar hugmyndavinnu sem er ætlað að varpa ljósi á vistvænni, samfélagsmiðaðri, hagkvæmari og framsæknari íbúðakosti í íslensku þéttbýli. Fjórir verkefnahópar voru valdir til að þróa hugmyndir um framtíðarkosti í íslenskum íbúðamálum og kynntu þau verkefni sín í Iðnó í morgun.

Eftir kynningarnar tóku við pallborðsumræður þar sem hugmyndirnar og framtíð skipulagsmála voru ræddar en í þeim tóku þátt. Jón Gnarr borgarstjóri, Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra, Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar, Gunnar Ó. Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur og Ríkharður Kristjánsson, byggingarverkfræðingur.

Gufuneskirkjugarður er drive-thru kirkjugarður

Þétting byggðar, byggingarreglur og framtíð einkabílsins voru mikið til umræðu. Þá velti Jón Gnarr m.a. fyrir sér hver heimspekin á bak við einkabílinn væri og nefndi að sennileg skýring væri að hugmyndir um frelsi og sjálfstæði á meðal íslendinga hefðu helst varðað veginn fyrir því hversu fyrirferðarmikill hann er í daglegu lífi hér á landi. Þá minntist hann á reynslu sína þegar hann fór í Gufuneskirkjugarð nýlega: „Ég fór með blóm á leiðið hjá mömmu minni á mæðradaginn eins og góðir synir gera og þá áttaði ég mig á því að Gufuneskirkjugarður er svona drive-thru kirkjugarður. Þú getur í raun keyrt beint upp að leiðinu, kastað blómum á það og keyrt strax í burt!“

Jón bætti því við að mikilvægt sé að bíllaus lífsstíll geti orðið raunhæfur valkostur. „Þetta er ekki lengur eitthvað gæluverkefni, þetta er orðið lífsnauðsynlegt. Hálf þjóðin er núna farin á hausinn út af bílalánum. Bíllaus lífstíll á að geta verið valkostur. Þetta á að vera eins og að fara á Subway. Ég á að geta valið að vera á hjóli eins og að ég get valið að fá gúrku á bátinn minn,“ sagði Jón.

Þurfum að setja verðmiða á hugmyndirnar

Eygló Harðardóttir benti á fundinum á nauðsyn þess að huga að kostnaði bygginga og hvernig hægt sé að nýta byggð betur sem nú þegar er til staðar. „Við þurfum að setja verðmiða á hugmyndirnar og finna leiðir til að lækka húsnæðiskostnað. Við getum ekki treyst á að kynslóðir framtíðar séu jafn efnaðar og við erum í dag. Að sama skapi þurfum við að finna leiðir til að nýta það sem við höfum núna. Í því ljósi þyrftu sveitarfélög t.d. að huga betur að því að auðvelda ferlið frá því að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðahúsnæði,“ sagði Eygló.