*

miðvikudagur, 12. ágúst 2020
Fólk 13. október 2019 18:15

Eins og í sögu eftir Kafka

Ingólfur Guðmundsson, nýr forstjóri CRI, starfaði í tvo áratugi fyrir Landsbankann en síðar tók ferill hans óvænta stefnu.

Höskuldur Marselíusarson
Atburðarásin sem Ingólfur Guðmundsson, nýr forstjóri Carbon Recycling International, lenti í vegna aðgerða FME minnti á Réttarhöldin eftir Franz Kafka enda vissi hann aldrei hver ásökunin var.
Eyþór Árnason

Eftir að hafa verið í stjórn Carbon Recycling International í rúmt ár hefur Ingólfur Guðmundsson tekið við sem forstjóri. „Þetta er mjög spennandi fyrirtæki sem var stofnað árið 2006 utan um tækni sem þróuð var hér á landi á framleiðslu á metanóli úr vetni og koldíoxíði frá mismunandi uppsprettum. Við erum svona fimm til tíu árum á undan öðrum í þessari tækni,“ segir Ingólfur.

„Þetta er mjög hagkvæmt, bæði umhverfislega eins og er mikið í umræðunni í dag, og orkulega, sérstaklega þegar við getum notað umhverfisvæna orku til að framleiða vetnið. Við höfum byggt verksmiðju við Bláa lónið, við stálver í Svíþjóð, kolaver í Þýskalandi og svo erum við búin að ganga frá fyrsta stóra samningnum í Kína, en kínverska fyrirtækið Geely, sem á meðal annars Volvo, er einn eigenda okkar en það framleiðir mikið af metanólbílum.“

Ingólfur hefur áður starfað við nýsköpun hjá iKort. „Ég stofnaði það ásamt tveimur öðrum en núna er það komið að meirihluta í eigu kanadískra aðila og hætti ég þar í byrjun árs. Reyndar byrjaði ég með minn eigin rekstur við að flytja inn norsk einingahús en seldi félagið eftir að ég fór í viðskipafræðinám til Danmerkur,“ segir Ingólfur.

„Þegar heim var komið byrjaði ég í Landsbankanum og ætlaði að vera þar í nokkra mánuði en var þar í tuttugu ár. Ég var reyndar á fimm til sjö ára fresti að fara í algerlega nýtt starf innan bankans sem var mjög þroskandi. Það var spennandi að hagræða og breyta þessu ríkisbákni sem þá var í alvöru þjónustufyrirtæki.“

Ferill Ingólfs tók svo óvænta stefnu eftir að hann hætti í bankanum og minnir atburðarásin á skáldsöguna Réttarhöldin eftir Franz Kafka en hún er rekin í bók Eggerts Skúlasonar, Andersen skjölin.

„Ég var þá framkvæmdastjóri Lífsverks, lífeyrissjóðs verkfræðinga, sem var í rekstri í Landsbankanum þegar Fjármálaeftirlitið hótaði að taka yfir sjóðinn ef ég yrði ekki rekinn. Þetta var mjög erfitt mál því ég fékk engin gögn um meinta sekt heldur var alltaf vísað í að starfsmenn bankans væru undir rannsókn Sérstaks saksóknara, sem aldrei varð neitt úr og eftir að málið var látið niður falla vann ég bæði skaða- og miskabætur,“ segir Ingólfur.

„Það er skemmtilegra að segja frá því að öll fjögur uppkomin börn míns og konu minnar, Sjafnar Þráinsdóttur sérkennslustjóra Fellaskóla, og átta barnabörnin, búa hérna í nágrenninu í vesturhluta borgarinnar og fylgist ég reglulega með þeim síðarnefndu spila fótbolta. Ég er mikið fyrir útiveru og fer bæði á rjúpu- og hreindýraveiðar, sem er virkilega góð tilbreyting, en ég sakna þess að veiða rjúpu með hundinum mínum sem vísaði á bráðina. Það var mikil sorg þegar hann dó í vor.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.