*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 24. nóvember 2018 19:01

Eins og PGA-mótaröðin

Fyrrum starfsmaður framleiðenda League of Legends kynnir á morgun, sunnudag, nýstofnuð Rafíþróttasamtök Íslands.

Höskuldur Marselíusarson
Ólafur Hrafn Steinarsson, formaður nýrra samtaka um rafíþróttir, segir bestu tölvuleikjaspilarana geta fengið vegabréfsáritun fyrir íþróttamenn til Bandaríkjanna enda jafnist fjöldi þeirra sem fylgjast með þeim á við stærstu íþróttamót heims.
Haraldur Guðjónsson

Formaður Rafíþróttasamtaka Íslands segir markmið þeirra vera að eyða fordómum og byggja upp heilbrigða umgjörð í kringum það sem hann kallar mest hraðvaxandi íþrótt heims.

Yfir 335 milljónir manns fylgjast með þeim sem keppa í ýmsum tölvuleikjum, þar sem verðlaunaféð getur oltið á hundruðum milljóna króna, en heildarvelta iðnaðarins í kringum þetta sívaxandi áhugamál samsvarar yfir 120 milljörðum króna á ári.

Á sunnudaginn mun formaður nýstofnaðra samtaka um það sem á ensku hefur verið kallað esports, eða rafíþróttir, Ólafur Hrafn Steinarsson, ásamt valinkunnum hópi keppenda og áhugamanna, halda kynningarfund um starfsemi samtakanna í HR á milli 15.00 og 17.00.

„Rafíþróttasamtök Íslands eru stofnuð af hópi einstaklinga sem eru mjög ástríðufullir fyrir rafíþróttum og hafa í gegnum árin verið viðloðnir þessa senu, bæði verið að skipuleggja viðburði og að keppa, t.d. fyrir Íslands hönd úti í Evrópu og víðar. Okkur langar að sýna að ef rafíþróttir eru stundaðar rétt, í jafnvægi við aðra hluti lífsins og heilbrigðan lífsstíl geti þetta verið jákvæð viðbót við lífið,“ segir Ólafur Hrafn.

Vann hjá framleiðendum LOL

Síðustu fjögur ár hefur Ólafur Hrafn starfað hjá Riot Games út í Írlandi, sem er fyrirtækið sem framleiðir tölvuleikinn League of Legends sem er einn sá stærsti þegar kemur að keppnum og áhorfi á þær.

„Ég hef sjálfur enga menntun tengda tölvuleikjum eða forritun, ég er með BS gráðu í sálfræði en komst í upphafi í vinnu hjá CCP að hluta til út af því að ég hafði verið að skipuleggja mót og viðburði og halda utan um samfélagið í kringum League of Legends. Það er nefnilega risastór heimur í kringum þetta þar sem mun fleiri en bara iðkendurnir sjálfir geta öðlast mjög verðmæta reynslu. Má þar nefna liðsstjóra, þjálfara, lýsendur, dómara og svo framvegis.“

Ólafur Hrafn segir mikilvægt að ungir áhugamenn læri að ekki sé nóg að verða góður í leikjunum sjálfum heldur þurfi samhliða þessu að standa sig vel í námi og starfi og rækta félagsþroska.

„Markmiðið hjá samtökunum er að koma saman og kynna rafíþróttir sem gilt áhugamál, losna við fordómana og fræða fólk um hvað þetta snýst. Þannig viljum við byggja upp umgjörð í kringum það að spila tölvuleiki með það að markmiði að verða góður. Þar er nálgunin auðvitað aðeins öðruvísi heldur en ef þú ert bara einn heima hjá þér að leika þér,“ segir Ólafur Hrafn.

„Þessi lið þau æfa til dæmis oftast saman í eigin persónu, þar sem þau þjálfa ákveðna færni, en svona samvinna reiðir sig á samskipti, sjálfsaga og gagnkvæma virðingu, sem allt eru hlutir sem við viljum sjá ungt fólk byggja upp fyrir verkefni lífsins. Rafíþróttamenn þurfa líka að borða hollt og hugsa um líkamann, þar með talið heilann og sálfræðilegu hliðina.“

Vilja komast í íþróttahreyfinguna

„Við ætlum til dæmis að kynna íslenska toppspilara en þar má nefna Finnbjörn, Finnsa, Jónasson, sem fékk íþróttamannavísa til að búa í Los Angeles enda er hann í úrvalsliði sem spilar í leiknum Overwatch, sem er með álíka marga iðkendur og golf. Því má líkja keppninni við PGA-mótaröðina.“

Að sögn Ólafs Hrafns er það ósk samtakanna að verða hluti af íþróttahreyfingunni á Íslandi, en hann segir slíka þróun vera að gerast úti í heimi.

„Fyrir mér skiptir svo sem mestu máli að vel sé að rafíþróttunum staðið heldur en að rífast um hvort þetta sé íþrótt eða ekki. Að sjálfsögðu myndum við þó vilja komast inn í umgjörðina í kringum íþróttahreyfinguna enda fylgjum við markmiðum hennar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.