Eric Friedman, háttsettur verkfræðingur hjá Apple, líkti öryggisráðstöfunum gegn óprúttnum aðilum á smáforritamarkaðnum App Store við að „mæta með smjörhníf úr plasti í skotbardaga“, að því er kemur fram í dómsskjölum sem voru birt í gær. Financial Times segir frá.

Fyrirtækið Epic Games, sem er þekktast fyrir að framleiða tölvuleikinn Fortnite, vitnaði í frásögn Friedman í skjölum sem fyrirtækið lagði inn fyrir réttarhöld fyrirtækjanna tveggja sem fara fram í Kaliforníu í næsta mánuði.

Tæknifyrirtækin hafa átt í deilum vegna 30% þóknunargjalds sem App Store leggur á smáforrit. Snjallsímaútgáfan af Fortnite var fjarlægð úr netversluninni í ágúst síðastliðnum eftir að Epic Games fann kom á fót sinni eigin greiðslugátt innan innan leiksins sem komst hjá þóknunargjaldinu.

Haft var eftir Eric Frieman, sem stýrir Fear (Fraud Engineering Algorithms and Risk) deild Apple, í dómsskjölunum að matsferlið fyrir ný smáforrit á App Store væri „líkara myndarlegu dömunni sem heilsar þér ... á flugvellinum í Hawaii frekar en hundarnir sem leita að fíkniefnum“. Hann sagði einnig að Apple væri illa að sér búið að standa af sér aðsókn „vandaðra árásarmanna“.

Ummælin gætu reynst slæm fyrir vörn Apple, sem byggir á að þóknunargjaldið sem nær til allra greiðslna innan App Store sé nauðsynlegt til að fjármagna eftirlit og netöryggi neytenda.

Apple heldur því fram að netverslun þeirra sé „talsvert öruggari“ en Android vettvangurinn. Netrisinn segist hafna um 40% af öllum smáforritum og að rúmlega 500 starfsmenn vinni við að vernda notendur.