Ársfundur Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins (NSA) var haldinn á Grand Hóteli þann 24. maí síðastliðinn. Iðnaðarráðherra var meðal þeirra sem þar komu fram en yfirskrift fundarins var „Horft út í heim – Hvar er næsta kynslóð íslenskra útflutningsfyrirtækja?“

Á fundinum var farið yfir ársreikning síðasta árs en sjóðurinn var rekinn með 315 milljóna króna tapi árið 2011.

Að sögn Helgu Valfells, framkvæmdastjóra sjóðsins, er aðalástæða þessa taps sala á eignarhlutum í fyrirtækjum og varúðarafskriftir. Hún benti þó á að snemma árs 2012 var eignarhlutur sjóðsins í Marorku seldur með góðum hagnaði.

Við árslok 2011 átti NSA hlut í 37 fyrirtækjum. Af þeim voru 25 fyrirtæki komin með veltu og var samanlögð velta þeirra rúmir fimm milljarðar króna.