„Það er ljóst að bankinn er í minnkunaraðgerðum sem sýnir sig í að lánabókin er að dragast saman og þá mest í lánum til fyrirtækja sem dragast saman úr 433,3 milljörðum króna í byrjun árs í 403,5 milljarða króna.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðbrögðum IFS Greiningar við árshlutauppgjöri Arion banka, sem birtist eftir lokun markaða síðastliðinn miðvikudag. „IFS telur uppgjörið litað af einskiptiskostnaði, m.a. útlánatöpum, fækkun starfa sem og minnkun efnahagsreiknings bankans,„ eins og það er orðað í tilkynningu um greininguna. „Við teljum að bankinn hafi á fjórðungnum stigið erfið en mikilvæg skref í átt að markmiðum sínum um að ná arðsemi í 10% og kostnaðarhlutfall yfir 50%,“ segir í niðurlagi greiningarinnar.

Stærsta skrefið sem bankinn tók í átt að þessu marki var fækkun starfsmanna, en bankinn sagði um 100 manns í september. „Bankinn gjaldfærði allan kostnað sem fylgdi brottrekstrinum í þessu uppgjöri eða um 900 m.kr. [sic] fyrir skatt. Þeir áætla að áhrif uppsagnarinnar muni nema um 1,3 ma.kr. á ársgrundvelli sem komi fyrst fram á fyrsta ársfjórðungi 2020. Bankinn gjaldfærði allan kostnað sem fylgdi brottrekstrinum í þessu uppgjöri eða um 900 m.kr. fyrir skatt. Þeir áætla að áhrif uppsagnarinnar muni nema um 1,3 ma.kr. á ársgrundvelli sem komi fyrst fram á fyrsta ársfjórðungi 2020.“

Uppgjörið var í takt við spá IFS nema bankinn tilkynnti um 3 milljarða króna afskriftir eftir að IFS gaf út sína spá. Það var helst í hreinni virðisbreytingu, sem skildi á milli spáa IFS og uppgjörsins, en hún var jákvæð um 500 milljónir króna. „Það bendir til að lánabókin sé mjög vel tryggð og að bankinn sé óhræddur við komandi tíð,“ segir í greiningunni.

„Bankinn afskrifaði starfsemi upp á 3,0 ma.kr. og endaði með um 800 m.kr. hagnað eftir gjaldfærslu á aflagðri starfsemi. En Hagnaður fyrir gjaldfærslu var um 1,3 ma.kr meira en IFS gerði ráð fyrir.“