*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Innlent 25. desember 2017 13:10

Einsleitni eykst þegar róðurinn þyngist

Framkvæmdastjóri Forlagsins segir bókaútgefendur ólíklegri til að taka áhættur þegar markaðurinn er erfiður.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Þrátt fyrir þungan róður er Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, sannfærður um að endalok íslenskrar bókaútgáfu séu hvergi nærri. „Það kemur aldrei að endalokum. En áhrifin af stöð­ ugum samdrætti í veltu verða engu að síður slæm. Einsleitni eykst, það verð­ ur erfiðara að komast inn á markaðinn, færri bækur koma út fyrir börn og unglinga. Það eitt og sér væri sérstaklega mikið óheillaskref.“

Hvar liggja sóknarfærin á bókamarkaði?

„Við sjáum erlendis að hljóðbækur hafa verið í verulegri sókn. Það er kannski sá geiri útgáfunnar sem er í hvað mestum vexti. Aðgengi að hljóðbókum er miklu meira og betra en var. Þetta hefur því miður ekki enn verið raunin hér heima. Hljóðbókaútgáfa hefur reglulega verið reynd á liðnum árum, en án árangurs. Við útgefendur höfum meðal annars bent á í því sambandi verulega fyrirferð Hljóðbókasafns Íslands, áður Blindrabókasafnið, en við höfum viljað meina að svo virðist vera sem mun fleiri hafi aðgang að safnkostinum en þeir sem eru prentleturshamlaðir.

Við höfum ítrekað séð merki þess að útbreiðsla efnis frá þeim er mun víðtækari en ætti að vera. Ekki nóg með það heldur eru lánþegar Hljóðbókasafnsins margfalt fleiri en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Því mætti leggja til að gerð yrði athugun á því hvað veldur því að prentleturshömlun virðist margfalt útbreiddari á Íslandi en í nágrannalöndunum. Við teljum reyndar að svo sé ekki, heldur að aðgengi að safninu sé miklu meira en eðlilegt gæti talist, sem hefur þýtt að almennum útgefendum er nánast ókleift að gefa út hljóðbækur í samkeppni. Við lítum svo á að við séum að keppa þar við hið opinbera, sem skiljanlega og eðlilega kappkostar að veita prentleturshömluðum góða þjónustu. Við það gerum við engar athugasemdir. Við höfum hins vegar gert alvarlegar athugasemdir við að útbreiðslan virðist mun meiri en hún eigi að vera, bæði fjölda lán­ þega og ekki síður fjölda útlána.“

Umræðan um rafbækur og verð rafbóka kemur reglulega upp, sérstaklega þegar þær eru ekki nema litlu ódýrari en prentaðar bækur. Hverju sætir það?

„Það hafa miklar mýtur verið um verð­ lagningu rafbóka frá því að við hófum útgáfu þeirra fyrir sex árum. Mýturnar eru fyrst og fremst að rafbækur séu allt of dýrar. Ég held að það heyrist í langflestum tilvikum fyrst og fremst þegar einstaklingar hafa kynnt sér bæði úrval og þá ekki síst verð rafbókanna. Amazon gerði afar vel í því þegar þeir fóru af stað með Kindle og útgáfu rafbóka að telja almenningi trú um að rafbækur ættu almennt að kosta á bilinu einn til fjóra dollara. Það varð því miður dálítið útgangspunkturinn þegar við hófum rafbókaútgáfu að allt sem kostaði meira en fjóra dollara, eða um 500 krónur, væri okur.

Staðreyndin er einfaldlega sú að prentkostnaður er almennt á bilinu 20-25% af heildarkostnaði við útgáfu bókar. Rafbókin þarf þó sömu ritstjórn, prófarkarlestur, kápuhönnun, markaðssetningu og svo framvegis, en þarf sannarlega ekki prentun. Útgangspunktur okkar við verðlagningu rafbóka hefur því verið að vera yfirleitt að minnsta kosti 20-25% ódýrari en ódýrasta prentaða útgáfa viðkomandi titils. Margar rafbækur eru mun ódýrari en það og þannig er hægt að fá íslenskar rafbækur fyrir 99 krónur og upp úr.

En mýtan er seig um að rafbækur séu allt of dýrar og að rafbók megi aðeins kosta brotabrot af prentaðri bók, því það sé enginn prentkostnaður. Rafbókaútgáfa er reyndar það sem hefur vaxið hvað mest í útgáfu Forlagsins á þessu ári. Þannig var vöxturinn í nóvember um 300% milli ára. Við höfum stóraukið framboð rafbóka á undanförnum misserum því við töldum að ein ástæða hægari útbreiðslu rafbókarinnar hér á landi væri of lítið framboð.

Nú er svo komið að við gefum út fleiri rafbækur á þessu ári en prentaðar bækur. Þetta hefur ekki gerst áður. Þannig reynum við að gefa út allar bækur sem erindi eiga á rafbók, samhliða útgáfu prentaðrar bókar og erum jafnframt að stórauka úrval eldri bóka. Fjöldi titla sem eru fáanlegir á rafbókaformi nálgast 1.000. Það hefur verið ánægjulegt að sjá að bækur sem komu jafnvel út fyrir tugum ára seljast prýðilega sem rafbækur.“

Fleiri rafbækur en bækur á prenti

Á hverju ári gefur Forlagið út um 150 nýja titla. Við það bætist endurútgáfa og endurprentanir eldri bóka, sem Egill Örn segir mikið lagt í. „Þá teygir þetta sig kannski nær 200 titlum. Og á árinu höfum við sennilega gefið út á þriðja hundrað rafbóka. Fjöldi prentaðra titla er svipaður og síðustu ár, kannski dregist heldur saman en þó ekki mikið. Við förum samt aldrei inn í árið með það að markmiði að gefa út tiltekinn fjölda. Það er ekkert gólf eða þak þegar kemur að fjölda útgáfutitla. Við reynum einfaldlega að gefa út það sem okkur líst vel á og teljum að eigi erindi og helst staðið undir sér.“

Áhugavert hvernig þú orðar þetta, að eiga erindi. Það eru þá ekki bara markaðssjónarmið sem ráða för því ábyrgð útgefanda að gefa út það sem fólk er að skrifa og hugsa hlýtur að vera mikil.

„Ábyrgð bókaútgefenda er mjög mikil, það er hárrétt. Langflestir íslenskir útgefendur taka þá ábyrgð mjög alvarlega. Við sem stærsti útgefandinn berum kannski mesta ábyrgð þar. Þannig erum við nánast eini útgefandi orðabóka á Íslandi – hlutverk sem við tökum mjög alvarlega. Við reynum að halda við helstu verkum bókmenntanna og tryggja að allt það helsta, svo sem klassísk meistaraverk, séu til og gefa út nýjar þýðingar erlendra úrvalsverka.“

Egill Örn segir Forlagið hafa á liðnum árum lagt áherslu á útgáfu orðabóka. „Þetta gerum við þrátt fyrir að velta í orðabókum hafi dregist verulega saman, ekki síst vegna tækniframfara. Okkur hefur þar af leiðandi þótt skjóta skökku við að á sama tíma og við höfum fjárfest verulega í útgáfu orðabóka hefur ríkið á nýjan leik verið að færa sig inn á þann markað í gegnum stofnun Árna Magnússonar, þar sem nú má meðal annars finna það sem þeir kalla Nýja íslenska orðabók í ókeypis aðgangi. Þetta þykir okkur einkennilegt þegar ekki eru nema rúm þrjátíu ár frá því að íslenska ríkið seldi okkur útgáfurétt Íslenskrar orðabókar.

Við höfum líklega varið um 200 milljónum í að uppfæra og gefa út orðabókina en þá seilist ríkið aftur inn á þennan markað með því að gefa út og senda frá sér orðabækur sem almenningur getur nálgast ókeypis. Ég fæ ekki séð hvernig við eigum að fara í því að standa í samkeppni við það sem ríkið gerir og gefur. Það getur verið dálítið snúið. Það hjálpar ekki á sama tíma og við eigum í vök að verjast að ríkið sé sífellt fyrirferðarmeira á íslenska bókamarkaðnum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is