Viðskiptaráð segir að útflutningur hér á landi hafi vaxið hægar og orðið einsleitari en markmið voru um, með sífellt meira vægi ferðaþjónustunnar sem er orðin þriðjungur heildarútflutnings.

Þó hafi lækkun erlendra skulda í kjölfar hagfelldra nauðasamninga við kröfuhafa föllnu bankanna og viðskiptaafgangur viðhaldið ytra jafnvægi. Ísland eigi þó enn langt í land að brúa framleiðnibilið gagnvart grannríkjum, framleiðni vinnuafls hafi ekki hækkað heldur vinnuframlag Íslendinga aukist enn frekar.

Skýrslu McKinsey fylgt eftir

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu þar sem Viðskiptaráð leggur mat á framvindu umbótatillagna sem lagðar voru fram í kjölfar útgáfu skýrslu alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins McKinsey & Company um íslenska hagkerfið frá árinu 2012.

Í skýrslunni, Leiðin að aukinni hagsæld, eru helstu greiningar skýrslu McKinsey uppfærðar og rýnt í efnahagslega framvindu síðustu ára á grunni niðurstöðu hennar. Jafnframt er lagt mat á framvindu umbótatillagna sem lagðar voru fram í kjölfar útgáfu skýrslu McKinsey.

Lág framleiðni og viðvarandi viðskiptahalli

Á þeim tíma þegar skýrsla McKinsey kom út hafði Ísland glímt við viðvarandi viðskiptahalla og lága framleiðni, og lagði ráðgjafarfyrirtækið fram stefnu um að auka framleiðni í innlendri þjónustu og stuðla að tilfærslu vinnuafls yfir í alþjóðageirann, þar sem meiri vaxtatækifæri væru.

Á þeim þremur árum sem liðnar eru síðan skýrsla McKinsey kom út segir Viðskiptaráð að um þriðjungur þeirra umbótatillagna sem mótaðar voru í kjölfarið hafi verið innleiddar. Þó sé framvindan mismikil eftir ólíkum hlutum hagkerfisins, vel hafi gengið að innleiða þær tillögur sem snúi að þjóðhagsrammanum, alþjóðageiranum, innlendri þjónustu og opinberri þjónustu, en hins vegar hefur lítil framvinda átt sér stað í auðlindageiranum, sem stendur undir bróðurparti af útflutningstekjum Íslands.