Einstæðar mæður eru stór hluti þess hóps sem er á leigumarkaði og fær greiddar húsaleigubætur. Um helmingur húsaleigubótaþega er yngri en 35 ára. Þetta kemur fram í nýrri könnun um útgreiðslu húsaleigubóta sem unnin var fyrir samráðsnefnd um framkvæmd laga og reglugerða um húsaleigubætur.

Þar kemur fram að námsmenn, öryrkjar og launafólk eru stærstu hópar þeirra sem eru á leigumarkaði og fá greiddar húsaleigubætur. Flestir sem fá húsaleigubætur eru einhleypir. 57% þeirra eru einhleypar konur, 30% einhleypir karlar en 13% er fólk í sambúð.

Um helmingur húsaleigubótaþega er á almennum leigumarkaði, fjórðungur býr í félagslegu leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga, en einnig er stór hópur sem býr á stúdentagörðum eða í öðru námsmannahúsnæði.

Ítarlegri upplýsingar má finna á vef velferðarráðuneytisins.