Eiginfjárstaða einstæðra foreldra styrktist mest eða um ríflega fjórðung á síðasta ári, umfram bæði einstaklinga sem og hjóna án barna, meðan fjölskyldum með neikvætt eigið fé í húsnæði fækkaði líkt og undanfarin ár að því er fram kemur hjá Hagstofu Íslands . Jafnframt minnkaði hlutfall hæðstu tekjutíundarinnar af heildareignum eilítið.

Heildareignir Íslendinga jukust á árinu um 13%, fóru úr 6.065 í árslok 2017 í 6.855 milljónir króna í lok árs 2018. Árið 2018 var hlutur fasteigna af heildareignum fjölskyldu um 75,5%, ökutækja 4,6%, bankainnistæða 11,2% og verðbréfa 7,6% og eru það sambærileg hlutföll og árið 2017. Samanlagðar eignir fjölskyldna í hæstu tíund eigna námu 2.955 milljörðum króna, eða um 43% af heildareignum sem er lækkun um tæp 2% frá fyrra ári.

Skuldir námu 2.111 milljörðum króna í árslok 2018 og jukust um 7,6% frá fyrra ári. Til skulda teljast allar skuldir fjölskyldu eins og fasteignaskuldir vegna fasteignakaupa, ökutækjalán, námslán, yfirdráttarlán og kreditkortalán. Skuldir hjóna með börn jukust um 8,2% og einstæðra foreldra um 7,2%. Skuldir hjóna án barna jukust um 6,3% og skuldir einstaklinga um 8,2%. Samanlagðar skuldir fjölskyldna í hæstu skuldatíund námu 834 milljörðum króna, eða um 39,5% heildarskulda.

Eiginfjárstaða, eða eigið fé fjölskyldna árið 2018, var alls 4.744 milljarðar króna og jókst um 15,6% á milli ára sem er minni hækkun en árið 2017 þegar eigið fé jókst um tæp 23% milli ára. Sá tíundi hluti fjölskyldna sem á mest eigið fé, á alls um 57,5% heildarupphæðar eigin fjár, eða 2.729 milljarða króna. Eiginfjárstaða er mismunur á heildareignum og heildarskuldum.

Eiginfjárstaða einstaklinga styrktist á síðasta ári frá fyrra ári um 15,6%, meðan eiginfjárstaða hjóna með börn styrktist um 19% og eiginfjárstaða einstæðra foreldra um 25,3% frá fyrra ári. Mest var styrkingin á milli ára í aldurshópunum 25-29 ára (43,9%) og 30-34 ára (33,6%).

Árið 2018 voru 3.275 fjölskyldur með neikvæða eiginfjárstöðu í fasteign, eða um 26% færri en árið 2017. Eiginfjárstaða þeirra í fasteign var að meðaltali neikvæð um 6,6 milljónir króna árið 2018, sem er aukning frá fyrra ári um 1,2 milljónir króna. Til samanburðar hækkaði heildarfasteignamat á landinu öllu um 14,8% á milli áranna 2017 og 2018.