Rétt rúm tíu prósent heimila landsins hafa lent í vanskilum með afborganir húsnæðislána eða húsaleigu síðastliðna tólf mánuði. Í Lífskjararannsókn Hagstofunnar kemur fram að rétt rúmur helmingur heimila landsins, 51,5%, hafi átt erfitt með að láta enda ná saman.

Einstæðir foreldrar standa verst en 18,3% þeirra höfðu lent í vanskilum með húsnæðislán eða leigu einhvern tíma síðastliðna 12 mánuði og í 28% tilvika lent í vanskilum með önnur lán.

Þá kemur fram í niðurstöðum rannsóknarinnar að 31,6% heimila töldu húsnæðiskostnað þunga byrði og gáðu 40% þeirra ekki mætt óvæntum útgjöldum upp á 160 þúsund krónur með þeim leiðum sem þau venjulega nýta til að standa undir útgjöldum.

Fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar að fjárhagsstaða heimilanna er heldur verri í ár en áður. Helsta undantekningin frá því er að greiðslubyrði og vanskil annarra lána en húsnæðislána hefur minnkað frá árinu 2010.

Lífskjararannsókn Hagstofunnar