Einstaklingar eru fjölmennir í hópi fjárfesta í þeim félögum sem skráð hafa verið á markað á síðustu mánuðum. Rúmlega 80% fjárfestahópsins að baki Eimskipafélags Íslands hf. og Regins hf. eru einstaklingar og um 70% í Fjarskiptum hf. Fjöldinn gefur einhverja vísbendingu um umfangið en erfiðara er að fá hugmynd um eignarhlutinn.

Tölur Seðlabankans um eign í hlutabréfasjóðum gefur nokkra hugmynd um þá fjármuni sem um er að ræða en hlutur heimila í hlutabréfasjóðum ríflega þrefaldaðist á síðasta ári og jókst úr tæpum fjórum milljörðum króna í upphafi árs 2012 í rúma 13 milljarða króna í febrúar síðastliðnum. Eign heimila í verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestingasjóðum nam tæpum 130 milljörðum króna í febrúar síðastliðnum.

Á sama tíma hafa innlán heimila hjá innlánsstofnunum dregist umtalsvert saman. Slík innlán lækkuðu um 17,7 milljarða króna á síðasta ári. Því virðist óhætt að draga þá ályktun að sparnaður heimila leiti að einhverju marki í hlutabréf.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .