Öll almenn fyrirtækjaþjónusta Arion banka á höfuðborgarsvæðinu verður sameinuð á einum stað, í aðalútibúi bankans í Borgartúni 18. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum og mun þessi breyting hafa með sér í för að almenn þjónusta til einstaklinga mun leggjast af í Borgartúni 18, nema að því leyti að fjármálaráðgjafar munu áfram taka á móti viðskiptavinum sem eiga fyrirfram bókaðan tíma.

„Viðskiptavinir á höfuðborgarsvæðinu, einstaklingar og fyrirtæki, sem þurfa á þjónustu gjaldkera að halda geta nálgast hana í útibúum Arion banka á Bíldshöfða í Reykjavík og við Smáratorg í Kópavogi. Sjálfsafgreiðslusvæðið í Borgartúni 18, eins og önnur sjálfsafgreiðslusvæði bankans, eru jafnframt opin allan sólarhringinn alla daga vikunnar,“ segir í tilkynningu bankans.

Þar segir jafnframt að reynslumiklir sérfræðingar í fyrirtækjaþjónustu sem starfað hafi í útibúum bankans á höfuðborgarsvæðinu sameinist nú í Borgartúni 18 í svokölluðum Fyrirtækjakjarna sem muni þjóna litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Fyrirtækjakjarninn opni 15. maí og muni fyrirtæki halda sömu tengiliðum hjá bankanum og allar viðskiptaupplýsingar, t.a.m. reikningsupplýsingar og útibúanúmer, verði óbreyttar. Sem fyrr geti fyrirtæki sótt einfaldari þjónustu, svo sem þjónustu gjaldkera, í útibú bankans um land allt.

Útibú í Hveragerði sameinast útibúi á Selfossi

Einnig verða breytingar á starfsemi bankans á Suðurlandi, en útibú Arion banka í Hveragerði mun sameinast útibúi bankans á Selfossi.

„Fyrir utan Borgartún 18 og útibú bankans í Hveragerði, sem mun sameinast útibúi Arion banka á Selfossi, munu útibú bankans aftur taka á móti gestum og gangandi frá og með 12. maí en þó með takmörkunum. Áfram verður nauðsynlegt að gæta að fjöldatakmörkunum og tveggja metra reglunni og þurfa viðskiptavinir því að takmarka komur í útibú eins og hægt er. Fyrir fjármálaráðgjöf eða flóknari erindi hvetjum við viðskiptavini okkar áfram til að bóka tíma með því að hafa samband við okkur,“ segir jafnframt í tilkynningu bankans.

„Markmiðið með stofnun Fyrirtækjakjarna er að bæta þjónustu við fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og auka aðgengi að sérfræðiþjónustu og ráðgjöf. Með því að vera með fyrirtækjaþjónustu okkar á einum stað styrkjum við þjónustuna. Við væntum þess að viðskiptavinir okkar kunni að meta þessar breytingar sem eru jafnframt liður í áframhaldandi þróun á þjónustu bankans til að mæta nýjum og breyttum þörfum viðskiptavina þar sem aukin áhersla er á stafrænar lausnir og persónulega fjármálaráðgjöf," segir Iða Brá Benediksdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka, í tilkynningunni.