Dr. Yaron Brook, forstöðumaður Aynd Rand-stofnunarinnar í Kaliforníu, fylgdi úr hlaði skáldsögu Ayn Rand, Kíru Argúnovu, sem Almenna bókafélagið gaf út 1. nóvember 2013, með erindi í fyrirlestrarsal í Öskju um sjálfselsku og kapítalisma í skáldskap Rand.

Brook sagði að í skáldsögum sínum drægi Rand upp mynd af hinum sjálfstæða, skapandi einstaklingi, sem væri stoltur af sjálfum sér og staðráðinn í að vaxa upp í það, sem hæfileikar hans stæðu til og skynsemi hans vísaði honum á. Andstæðurnar í lífinu væru frjáls og óhindraður vöxtur einstaklinganna innan þeirra marka, sem frelsi annarra settu og valdboð opinberra aðila. Aristóteles væri sá heimspekingur, sem skyldastur væri Rand.

Sjálfselska í skilningi Rand fæli ekki í sér áreitni við aðra. En hinn stolti og sjálfstæði maður Rand, sem oft væri raunar kona, til dæmis Kíra Argúnova í samnefndri sögu og Dagný Taggart í Undirstöðunni, neitaði að fórna sér fyrir aðra. Hann væri ekki fæddur til að vinna fyrir aðra, heldur fyrir sjálfan sig. Kapítalisminn væri það hagkerfi, sem kæmist næst því að veita fólki skilyrði til að vaxa og dafna í fjölbreytileika sínum án átroðnings við aðra eða frá öðrum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .