Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Samband íslenska sveitarfélaga segja fullt samræmi milli samkomulags þessara aðila við heildarsamtök opinberra starfsmanna og lagafrumvarps um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Ótakmörkuð bakábyrgð kemur ekki til greina

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem birtist á vef fjármálaráðuneytisins en hún er þvert á yfirlýsingu samtakanna. Kemur meðal annars fram í fréttatilkynningunni að margoft hafi verið tekið skýrt fram við forsvarsmenn heildarsamtakanna að ótakmörkuð bakábyrgð til langs tíma kæmi ekki til greina

Jafnframt er harmað í tilkynningunni að þessi staða sé komið upp enda hafi verið unnið að breytingunum í góðu samstarfi undanfarin ár.

Miskilningur um ríkari ábyrgð launagreiðenda

„Svo virðist sem fulltrúar a.m.k. hluta heildarsamtakanna hafi misskilið mikilvæg ákvæði samkomulagsins og talið að þau veittu ríkari ábyrgð launagreiðenda en raun ber vitni,“ segir í fréttatilkynningunni.

„Í tengslum við undirbúning lagafrumvarpsins var haft ítarlegt samráð við fulltrúa heildarsamtakanna sem fengu tækifæri til að fara yfir lagafrumvarpið og bera ákvæði þess saman við samkomulagið. Við þá yfirferð kom ekki fram það sjónarmið að samkomulagið fæli í sér ótakmarkaða ábyrgð launagreiðenda á skuldbindingum A-deilda.“

Ekki áhugi á að vinna að samkomulagi

Segir þar jafnframt að ríki og sveitarfélög hafi verið reiðubúin til að ræða afmarkaðar breytingar á fyrirkomulagi ábyrgðar launagreiðenda þegar „breytt afstaða heildarsamtakanna lá fyrir...en samtökin höfðu ekki áhuga á að vinna að slíku samkomulagi,“ segir í fréttatilkynningunni.

„Nú er einstakt tækifæri til að ljúka málinu og stuðla að mikilvægum framförum á sviði lífeyrismála landsmanna og vinna að þróun nýrra vinnubragða við gerð kjarasamninga. Þá veitir jöfnun lífeyrisréttinda tækifæri til jöfnunar launa milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins sem erfitt er að ná fram við óbreytta skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna.“