„Við erum tiltölulega tilbúin til að takast á við þetta,“ segir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, um stöðu embættisins sem hann stýrir. Í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudag er ítarleg úttekt á því aukna álagi sem íslenskt réttarfarskerfi stendur frammi fyrir í kjölfar efnahagshrunsins. Þar er meðal annars rætt við yfirmenn þeirra ákæruvalda sem eiga að rannsaka meint efnahagsbrot á Íslandi.

Ólafur segir að stöðugur vöxtur hafi verið á embættinu frá því að það var sett á laggirnar og mannhaldsáætlanir gera ráð fyrir áframhaldandi viðbót fram á mitt sumar hvað varðar rannsóknaraðila og sérþekkingu innan embættisins. Við erum þegar búin að ganga frá ráðningum sem gera það að verkum að starfsmenn verða á bilinu 30 til 32. Nú eru að minnsta kosti 40 mál sem eru opin til rannsóknar. Við bindum vonir við að hægt verði að klára rannsókn einhverra þeirra í lok vetrar.“

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota hjá embætti ríkislögreglustjóra, segir álagið á sína deild hafa margfaldast. „Árið 2007 voru kærurnar inni á borði hjá okkur 58 talsins, 2008 fjölgaði þeim í 90 og í fyrra voru þær 133. Þær hafa því tvöfaldast á tveimur árum.“ Á sama tíma hafi starfsmönnum ekki fjölgað neitt, en þeir eru samtals sextán hjá embættinu í dag.

__________________________________

Ítarlega er fjallað um aukið álag á íslensku réttarfarskerfi í kjölfar efnahagshrunsins í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.