Í dag verður Viðskiptaþing Viðskiptaráðs Íslands haldið á Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni „Börn náttúrunnar: Framtíð auðlindagreina á Íslandi“. Efnistökin lúta að framtíð auðlindagreina Íslands, með áherslu á sjávarútveginn, orku og ferðaþjónustuna.

Ræðumenn koma úr ólíkum áttum, en aðalræðumaður þingsins verður Wal van Lierop, hollenskur hagfræðingur og framtaksfjárfestir sem sérhæfir sig í sjálfbærum tækninýjungum í auðlindagreinum. Hann er stofnandi og forstjóri Chrysalix, kanadísks nýsköpunarsjóðs á sviði nýrra tæknilausna og auðlindanýtingar. Sjóðurinn hlaut verðlaun í San Francisco fyrir tveimur vikum síðan sem fremsti sjálfbæri framtakssjóðurinn í heiminum fyrir árið 2017. Van Lierop býr yfir fjölbreyttri alþjóðlegri reynslu sem forstjóri, virtur alþjóðlegur ráðgjafi og háskólaprófessor, einkum á sviði alþjóðavæðingar, iðnaðartækni og auðlinda.

Erindi van Lierops mun fjalla um samkeppnisstöðu Íslands sem auðlindadrifið hagkerfi og auðlindatengdra fyrirtækja hér á landi, með hliðsjón af breytingum í tækni, alþjóðastjórnmálum, lýðfræði og umhverfismálum á heimsvísu. Fyrirlestur hans mun bera yfirskriftina „Íslenska tækifærið“.

„Erindi mitt verður um það hvernig Ísland getur kreist sem mest verðmæti út úr náttúrulegum auðlindum landsins, á tímum þegar stórar breytingar eru að eiga sér stað á heiminum,“ segir van Lierop í samtali við Viðskiptablaðið. „Annað atriði sem ég mun fjalla um er nýsköpun – hvernig nýsköpun getur tryggt að lönd fái fullt virði fyrir þau aðföng sem náttúra lands gefur af sér.“

Tvöföld útborgun

Van Lierop telur gríðarleg tækifæri vera fólgin í því hér á landi að gera meira með þær náttúruauðlindir sem landið hefur upp á að bjóða. Auðlindir eru í eðli sínu einstakar og bjóða upp á einstök tækifæri fyrir auðsköpun í auðlindaríkum löndum, líkt og á Íslandi, ef auðlindirnar eru nýttar með sem bestum og hagkvæmustum hætti. Nýsköpun opnar þar veginn.

„Ef landið virðir þær auðlindir sem náttúran býður upp á, og þróar tæknina til að fá sem mest virði út úr þeim markaði, þá er góður möguleiki á því að fá tvöfalda útborgun. Það felst annars vegar í því, að virði náttúruauðlindanna og náttúruafurðanna er hámarkað.

Hins vegar þróast nýr tæknigeiri í landinu. Tæknigeirinn er stuðningsfyrirbæri við hefðbundnu auðlindagreinarnar og framleiðir vörur og þjónustu til að bæta virði afurðarinnar. Auðlindagreinin þarf á þessum vörum að halda hvort eð er til að viðhalda samkeppnishæfni á erlendum mörkuðum, þannig að það er betra að tæknigeirinn þróist innanlands og þjónusti bæði innlendan markað jafnt sem erlenda. Það skapar störf innanlands og skilar meiri tekjum og virðisauka í innlenda hagkerfinu,“ segir van Lierop.

Sem dæmi nefnir van Lierop orkugeirann á Íslandi. „Ísland er í sérstöðu þegar horft er til endurnýjanlegrar orku. En ef Ísland nýtir ekki orkuna þá tapast hún, ef svo má segja. Það eru t.d. mikil tækifæri fólgin í sæstreng til Bretlands, svokölluðum Icelink. En það er bara upphafið. Ef bætt er við t.d. upplýsingatækni og nútímalegum aðferðum í stjórnun netkerfis, þá er ekki aðeins um að ræða búnað fyrir miðlun á orku, heldur einnig búnað til að hafa áhrif á netkerfið í Evrópu,“ segir van Lierop.

Lögmálið í þessu er að fólk vill betri vörur. „Heimurinn vill betri vörur. Það er ekki hægt að bæla niður innri hvata fólks út um allan heim fyrir betri, gæðameiri vörur. Ísland hefur tækifæri til að gera betur í að uppfylla þá eftirspurn á ýmsum sviðum, sérstaklega í sjávarútvegi, í orkugeiranum og í fasteignainnviðum í sambandi við gagnaver, með því að þróa tæknigeira samhliða hefðbundnum, auðlindadrifnum greinum,“ segir van Lierop.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .