Refsað hefur verið í rúmlega 2% mála, þar sem rannsókn hefur beinst að broti á auglýsingabanni áfengislaga undanfarin sex ár. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar þar að lútandi.

Alls voru 203 mál rannsökuð hjá lögreglu á árunum 2005 til 2014 vegna meintra brota á auglýsingabanninu, en tvær þeirra leiddu til sakfellingar sé litið til seinustu sex ára. „Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara voru útgefnar ákærur á þessu árabili tvær og var málunum lokið með sakfellingu og sakborningur dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 150.000 kr. og 400.000 kr. Annað málið var dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur, mál nr. S-337/ 2009, og hitt í Héraðsdómi Suðurlands, mál nr. S-340/2011," segir í svari innanríkisráðherra.

Flest málin voru rannsökuð vegna ábendinga, eða 163 talsins. 36 mál voru rannsökuð að frumkvæði lögreglu, en óljóst er um upphaf rannsóknar í fjórum málum hjá lögreglu.